151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að vanda til verka við gerð lögreglulaga og breytinga á þeim. Gleymum því ekki að hæstv. forsætisráðherra bað fyrrverandi sakborninga og aðstandendur þeirra vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins afsökunar á því ranglæti sem þeir máttu þola. Það er ýmislegt í þessu máli sem þarf að fara mjög vandlega yfir og annað sem vantar.

Ég er aðeins á svipuðum nótum varðandi það sem var hér á undan í andsvari og lýtur að erlendum lögreglumönnum, eins og kemur fram í 4. gr. Þar bætist ný málsgrein við um að erlendir lögreglumenn sem koma til starfa hér á landi samkvæmt 1. mgr. 11. gr. fari með lögregluvald. Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að þetta er mjög víðtæk heimild og víðtækari heldur en t.d. sambærilegt ákvæði í norsku lögreglulögunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki sé við hæfi að setja í lögin, eins og er í dönsku lögunum, skýringar á því hvenær t.d. beiting skotvopna og kylfu er heimil.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til álita að óháð eftirlitsnefnd eða starfshópur rýni verklag og aðferðafræði og ræði við starfsmenn lögreglu undir nafnleynd varðandi hvernig raunverulega sé unnið og hvort það samrýmist erlendum starfsaðferðum. Við erum að gera þetta í Schengen-málunum. Þá kemur hér úttektarnefnd til landsins og eins og frægt er þá gaf hún okkur falleinkunn. Og minnumst þess, eins og ég sagði í upphafi, (Forseti hringir.) að niðurstaðan í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, eins og það þróaðist í mörg ár, gefur okkur fullt tilefni til að fylgjast með rannsóknum.