151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ég vil vekja athygli á því, eins og ég sagði hér áðan, að í 20. gr. norsku lögreglulaganna segir að lögregluvald megi í undantekningartilfellum veita öðrum en taldir eru upp í lögunum. Það er einnig sérstakt ákvæði í 20. gr. um erlenda lögreglumenn og þar er áréttað að í undantekningartilfellum sé heimilt að veita þeim lögregluvald. Ég held að það sé fullt tilefni fyrir nefndina til að fara vandlega yfir þetta og hafa til hliðsjónar hvernig staðið er að þessum málum í nágrannalöndunum. Það er mjög mikilvægt í þeirri vinnu sem fram undan er.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra í síðara andsvari hvernig hún sæi fyrir sér að takmarka og fylgjast með beitingu valds, þ.e. að erlendir lögreglumenn fái lögregluvald og í hvernig tilvikum. Hver á að fylgjast með þessu og hvers vegna er ekki ráðuneytið sjálft með þetta á sinni könnu? Hvernig verður tryggt að erlendir lögreglumenn t.d. frá Bandaríkjunum, og hafa ber í huga að hugarfar þeirra er annað við beitingu skotvopna og handtökur, við vitum það mjög vel, fari eftir þeim reglum sem við höfum haft í heiðri? Þessir aðilar hafa allt aðra nálgun á beitingu skotvopna þegar viðkomandi er t.d. hættulegur. Þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að fá skýr svör við þessu.

Ég verð að segja það, og ég kem nánar inn á það á eftir, herra forseti, í ræðu, að ég held að full þörf sé á að setja heildstæð ný lögreglulög. Það er margt í þessu frumvarpi sem vantar, (Forseti hringir.) sem er að finna í norrænum lögreglulögum. Þá er það alltaf þannig (Forseti hringir.) að óskýrt framsal lögregluvalds án takmarkana er ekki farsælt skref og þess vegna er nauðsynlegt að fara varlega.