151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[13:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, hafa að mörgu leyti staðist tímans tönn á þeim rúmlega 25 árum sem liðin eru frá því að þau voru sett. Hins vegar hefur umhverfi þessara mála breyst talsvert frá gildistöku laganna. Aukin áhersla er lögð á umhverfis- og loftslagsmál, meiri áhersla á velferð dýra og dýravernd, skuldbindingar Íslands á grundvelli alþjóðasamninga hafa breyst og straumur ferðamanna sem hingað koma til að skoða náttúru og dýralíf hefur aukist. Í ljósi þessa kemur fram í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta, „að dýralíf á Íslandi sé hluti af íslenskri náttúru sem beri að vernda. Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn. Endurskoða þurfi löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.“ Með þetta að leiðarljósi var hafist handa við endurskoðun núgildandi laga.

Til grundvallar vinnunni var skýrsla nefndar um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra en nefndin var skipuð hinn 9. júlí 2010 af þáverandi umhverfisráðherra. Nefndinni var samkvæmt erindisbréfi ætlað að varpa skýru ljósi á lagalega stöðu villtra fugla og villtra spendýra á Íslandi, m.a. með tilliti til dýraverndunarsjónarmiða og leggja fram tillögur um úrbætur með það að leiðarljósi að uppfylla markmið gildandi laga og þeirra alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að og varða verndun villtra fugla og villtra spendýra og veiðar á þeim.

Nefndin skilaði umfangsmikilli og vandaðri skýrslu um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og villtra spendýra hinn 3. apríl 2013. Í skýrslunni var gengið út frá nokkrum meginreglum sem tillögur hópsins byggðu á, en þær voru:

1. Að stuðla skuli að því að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum,

2. að tryggja skuli vernd villtra dýrastofna, það er að öll dýr verði í grunninn friðuð og að litið verði á þau sem skyni gæddar verur, sem koma skuli fram við af virðingu og með velferð þeirra að leiðarljósi,

3. að tryggja skuli að ekki verði gengið á búsvæði villtra dýra í þeim mæli að það ógni viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra,

4. að tryggja skuli að villt dýr njóti verndar fyrir hvers kyns umsvifum mannsins eða annarra lífvera á hans vegum, sem ógnað geta viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra,

5. að áhersla skuli lögð á að aflétting friðunar og leyfi til veiða byggist á haldbærum upplýsingum um stofnstærð og veiðiþol viðkomandi stofns eða um tjón sem hann kann að valda. Skort á upplýsingum ætti að túlka villtum dýrum eða náttúrunni í hag og veiðiaðferðir skuli taka mið af velferð og líffræði viðkomandi tegundar með tilliti til ótta, sársauka og dauðastríðs, með það fyrir augum að lágmarka þessa þætti eins og kostur er. Þá eigi velferð og viðhald veiðistofna að vera höfð í fyrirrúmi umfram hefðir og sérhagsmuni, enda tryggi það sjálfbæra nýtingu og aðgang komandi kynslóða að þeim.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu eru lagðar til talsverðar breytingar á lagaumgjörð mála er varða vernd, friðun og veiðar villtra fugla og villtra spendýra í samanburði við gildandi lög nr. 64/1994. Helstu nýmæli eru víðtækari markmiðsákvæði, tilteknar lagfæringar á gildissviði og ítarlegri skilgreiningar á hlutverki og verkefnum stofnana ráðuneytisins og annarra aðila sem fjalla um þessi mál. Aukin áhersla er á alhliða vernd villtra fugla og villtra spendýra og helstu búsvæða þeirra í ljósi þess að þau eru mikilvægur hluti af náttúru Íslands, aukin áhersla á dýravernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra. Komið er til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól þannig að þeir hafi eins og kostur er möguleika á að stunda veiðar eins og aðrir. Lagðar eru til breytingar á þeim veiðitækjum sem óheimilt er að nota. Válistar vegna villtra fugla og villtra spendýra eru lögfestir. Gerðar verða stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir allar tegundir eða stofna villtra fugla og villtra spendýra. Ákvarðanir um vernd og veiðar á grundvelli laganna skuli byggja á vísindalegum og faglega unnum stjórnunar- og verndaráætlunum. Allar nytjaveiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum verði sjálfbærar. Nokkrar breytingar eru gerðar á veiðikortakerfinu. Tekið verði með markvissari og skipulagðari hætti á tjóni vegna villtra fugla og villtra spendýra. Veiðistjórnun og veiðieftirlit verði lögfest fyrir allar tegundir veiða á villtum fuglum og villtum spendýrum. Sala á veiðifangi villtra fugla og villtra spendýra byggist á því að umræddur veiðistofn þoli slíka sölu með sjálfbærum hætti.

Ég ætla ekki að fara nánar yfir öll þau atriði sem ég hef hér talið upp en vil hins vegar fjalla um nokkur þessara atriða og þá fyrst um markmiðsákvæði frumvarpsins. Þau eru kjarninn í frumvarpinu og þar eru ástæður sem liggja að baki einstökum greinum frumvarpsins tíundaðar. Þegar unnið var að þessari grein frumvarpsins var talsvert horft til þeirra meginreglna sem nefnd um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra horfði til og tillögur hópsins byggðu á og ég rakti hér að framan. Auk þeirra sjónarmiða sem þar komu fram, hefur í markmiðsákvæði verið bætt við því mikilvæga markmiði að treysta eftirlit og virka stýringu á veiðum auk þess sem eitt af markmiðunum er að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði sem Íslendingar eru aðilar að en hvort tveggja eru mikilvægir þættir við framkvæmd þessara mála hérlendis.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að kveða skýrar á um hlutverk stofnana og annarra aðila við framkvæmd þessara mála en gert er í gildandi lögum. Annars vegar um stefnumótunarhlutverk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í þessum málaflokki og hins vegar um þau verkefni sem einstakar fagstofnanir ráðuneytisins eiga að vinna að og bera ábyrgð á. Hér er sérstaklega átt við verkefni og hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar, en báðar stofnanirnar gegna lykilhlutverki við framkvæmd þessara mála. Einnig er kveðið skýrar á um hlutverk tiltekinna annarra aðila við framkvæmd þessara mála, svo sem hreindýraráðs og Náttúrustofu Austurlands.

Í ljósi þess veigamikla hlutverks sem bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun munu hafa, verði frumvarp þetta að lögum, m.a. við gerð stjórnunar- og verndaráætlana, er mjög mikilvægt að verkaskipting þessara stofnana innbyrðis sé skýr og að enginn vafi leiki á hlutverki hvorrar fyrir sig. Í frumvarpinu er í meginatriðum gengið út frá því að Náttúrufræðistofnun Íslands gegni rannsóknar- og vöktunarhlutverki í málaflokknum en að Umhverfisstofnun hafi hins vegar umsjón með framkvæmd mála er varða vernd, friðun og veiðar. Auk þess er lagt til að stofnunin hafi með höndum eftirlit og veiðistjórnun og fari með almenna framkvæmd laganna. Sameiginlega fara Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands síðan með veigamikið hlutverk er lýtur að stjórnunar- og verndaráætlunum fyrir villta fugla og villt spendýr sem verður helsti grundvöllur fyrir mikilvægustu ákvarðanatökur í tengslum við málefni villtra fugla og villtra spendýra. Gert er ráð fyrir að við gerð áætlana verði einnig um skýra verkaskiptingu að ræða milli þessara stofnana þótt kveðið sé á um að Umhverfisstofnun beri heildarábyrgð á gerð áætlunarinnar.

Gerð stjórnunar- og verndaráætlana er ein helsta breytingin sem kveðið er á um í frumvarpinu miðað við gildandi lög. Mælt er sérstaklega fyrir um að gera skuli slíkar áætlanir fyrir allar helstu tegundir villtra fugla og villtra spendýra. Í frumvarpinu er hins vegar kveðið á um að leggja skuli áherslu á gerð slíkra áætlana fyrir tegundir sem hafa sætt einhverri nýtingu eða eru líklegar til að valda tjóni.

Segja má að lögfesting stjórnunar- og verndaráætlana sé í raun hjartað í þessu frumvarpi og meginbreytingin frá gildandi lögum um þetta efni. Með gerð slíkra áætlana er lagður mikilvægur grunnur að því að ávallt verði byggt á haldbærum, faglegum og vísindalegum upplýsingum við vernd, stýringu og stjórnun á stofnum villtra dýra. Með þessari aðferðafræði verður eins og kostur er tryggt að á einum stað verði að finna allar nauðsynlegar upplýsingar sem liggja þurfa fyrir um hlutaðeigandi tegund eða stofn áður en stjórnvöld taka mikilvægar ákvarðanir. Slíkar áætlanir yrðu birtar opinberlega þannig að þær yrðu aðgengilegar almenningi.

Þótt gert sé ráð fyrir því að stjórnunar- og verndaráætlun sé í raun ein heildstæð áætlun er jafnframt gert ráð fyrir að hún verði í raun byggð á tveimur meginþáttum. Kveðið er á um að Náttúrufræðistofnun Íslands, sem samkvæmt lögum um stofnunina stundar grunnrannsóknir í dýrafræði og á náttúru Íslands, sjái um gerð þess hluta áætlunarinnar sem snýr að verksviði hennar. Þar gerir stofnunin grein fyrir mati sínu á stofnstærð, stofnþróun, útbreiðslu, viðkomu, veiðiþoli og ákjósanlegri verndarstöðu og verndarþörf hlutaðeigandi tegundar eða stofns og breytingum þar á.

Hinn meginþáttur áætlunarinnar er stjórnunarhlutinn. Kveðið er á um að Umhverfisstofnun, sem fer með stjórnsýslu og framkvæmd þessara mála, sjái um gerð þess þáttar áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að stjórnunarþátturinn byggist á verndarhluta hennar og fjalli um leiðir og aðgerðir til að bregðast við breytingum á ástandi og verndarstöðu tegunda, svo sem að endurheimta, viðhalda eða minnka stofnstærð og útbreiðslu tiltekinnar tegundar, ásamt tillögum um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum, ef það á við, og aðgerðum til að bregðast við tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra. Auk þess er lagt til að Umhverfisstofnun hafi það verkefni með höndum að hafa umsjón með gerð og skilum á tillögu að heildaráætluninni til ráðherra til yfirferðar, samþykktar og birtingar þannig að það verkefni sé á höndum eins skilgreinds aðila innan stjórnsýslunnar.

Í meginatriðum er í stjórnunar- og verndaráætlun gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands leggi fram sjónarmið sín um mat á viðkomandi stofni og verndarþörf hans en Umhverfisstofnun leggi að því búnu fram tillögur á grundvelli þess hvernig rétt sé að vinna úr niðurstöðunum til að ná fram skilgreindu markmiði. Sé gert ráð fyrir því í áætluninni að fyrir hendi sé grundvöllur til að veiða úr stofninum skulu stjórnunarhluta áætlunarinnar fylgja útfærðar tillögur Umhverfisstofnunar um það hvernig lagt er til að slíkum veiðum skuli háttað. Í stjórnunar- og verndaráætlunum vegna einstakra stofna eða tegunda verður þannig annars vegar lagt mat á nauðsynlega verndun og friðun og hins vegar eðlilega og sjálfbæra nýtingu. Með slíkri heildstæðri áætlun er tryggt að ákvörðun um friðun eða nýtingu einstakra tegunda eða stofna villtra dýra sé byggð á vel undirbyggðum vísindalegum forsendum.

Í frumvarpinu er eins og áður sagði kveðið á um að stofnanirnar forgangsraði verkefninu þannig að áhersla verði lögð á að ljúka gerð slíkra áætlana varðandi villta fugla og villt spendýr sem sætt hafa nytjaveiðum hérlendis og tegundir sem taldar eru valda tjóni við tilteknar aðstæður, eins og t.d. refi og tilteknar tegundir fugla.

Þegar stjórnunar- og verndaráætlanir liggja fyrir um einstakar tegundir eða stofna munu þær verða veigamikill faglegur grundvöllur fyrir ráðherra áður en hann tekur ákvarðanir um afléttingu friðunar til nytjaveiða eða til veiða til varnar tjóni og um það hvernig haga beri slíkum veiðum. Mikilvægt er að þessar áætlanir verði lifandi og að þær séu endurskoðaðar eins oft og þörf er á. Því er í frumvarpinu að finna ákvæði um að þær skuli endurskoðaðar á fimm ára fresti eða oftar ef þörf er á.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samþykktar stjórnunar- og verndaráætlanir hafi einnig mikilvægu hlutverki að gegna við að marka ákveðinn og skýran ramma um heimildir til handa Umhverfisstofnun til að veita undanþágur til veiða á tilteknum tegundum villtra fugla og villtra spendýra sem taldar eru valda tjóni á vissum stöðum eða við tilteknar aðstæður, jafnvel þótt ráðherra hafi ekki aflétt friðun af hlutaðeigandi tegund. Með frumvarpinu er því komið mikilvægt verkfæri, ekki bara fyrir friðun og verndun einstakra tegunda, heldur einnig til að hægt sé að heimila veiðar tiltekinna stofna eða tegunda sem talið er að geti valdið tjóni eða hætta sé á að geti valdið tjóni á þeim hagsmunum sem skilgreindir eru í frumvarpinu og að slíkar ákvarðanir byggist á besta vísindalega mati sem völ er á hverju sinni.

Mikilvægt er að fyrir liggi góðar og haldbærar upplýsingar um stöðu og þróun stofnstærðar þeirra tegunda sem lögin taka til. Þetta gildir bæði um íslenska varpfugla og spendýr sem dvelja hér allt árið og farfugla sem koma hér við reglulega vor og haust á leið sinni milli vetrar- og varpstöðva í öðrum löndum. Í frumvarpinu er það nýmæli að lagt er til að válistar vegna villtra fugla og villtra spendýra séu lögfestir hérlendis og gegni ákveðnu hlutverki í þessu sambandi. Þetta er í samræmi við tillögu framangreindrar nefndar um endurskoðun laganna. Náttúrufræðistofnun Íslands er fengið það hlutverk að annast gerð válista fyrir fugla og spendýr í samræmi við viðurkennd alþjóðleg viðmið um gerð slíkra lista, samanber leiðbeiningar Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, IUCN.

Á válista er tegundum fugla og spendýra raðað í mismunandi ástands- og hættuflokka eftir stöðu tegundar og breytingum á stofnstærð hennar á undanfarandi árum. Válisti skiptist í nokkra mismunandi verndar- og ástandsflokka yfir tegundir sem eru taldar í mismikilli hættu og tegundir sem eru ekki taldar vera í hættu. Í frumvarpinu er ekki mælt fyrir um að flokkun tegundar í einn af þessum þremur hættuflokkum á válista leiði sjálfkrafa til verndar eða friðunaraðgerða. Gert er ráð fyrir að tillögur um aðgerðir til verndar og nýtingar eða aðgerða vegna hættu á tjóni séu ávallt mótaðar og lagðar fram í stjórnunar- og verndaráætlun sem ráðherra staðfestir og birtir. Eitt af þeim atriðum sem litið er til í stjórnunar- og verndaráætlun eru válistar og þannig koma þeir inn í mat á mögulegum veiðum. Því er síðan fylgt eftir með reglugerð ráðherra eða með heimild Umhverfisstofnunar samkvæmt frumvarpinu.

Í frumvarpinu er fjallað um tjón af völdum villtra fugla og villtra spendýra, en um helstu viðbrögð og aðgerðir vegna ágangs og hættu á tjóni af völdum einstakra tegunda eða stofna villtra fugla og villtra spendýra skal fjalla í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir einstakar tegundir. Þar skal koma fram mat á því hvort hætta geti verið á því að tegundin geti valdið raunverulegu og skilgreindu tjóni á heilsu fólks eða búfénaðar, hún geti ógnað öryggi, valdið umtalsverðu fjárhagslegu tjóni einstaklinga eða lögaðila eða ógnað eða haft veruleg áhrif á náttúru landsins og líffræðilega fjölbreytni þess.

Þegar slíkt mat liggur fyrir getur ráðherra tekið ákvörðun um viðbrögð vegna slíks tjóns með almennum hætti, t.d. með því að aflétta friðun af umræddum tegundum á tilteknum svæðum, við tilteknar aðstæður, á tilteknum tímum árs eða jafnvel allt árið. Ráðherra hefur því rúmar heimildir til að aflétta friðun á þeim tegundum villtra fugla og villtra spendýra með reglugerð telji hann að þörf sé á.

Samhliða heimildum ráðherra er gert ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geti lagt til í stjórnunar- og verndaráætlunum að stofnunin fái tilteknar skilgreindar heimildir til veiðistjórnunar samkvæmt frumvarpinu. Jafnvel þó að friðun hafi ekki verið aflétt eða hafi einungis verið aflétt á tilteknum tímum árs geti stofnunin eftir sem áður veitt undanþágur frá friðunarákvæðum vegna tiltekinna tegunda við ákveðnar aðstæður eða á tilteknum svæðum, enda liggi fyrir að tegundirnar geti valdið raunverulegu og skilgreindu tjóni í samræmi við skilyrði greinarinnar. Undanþágurnar þurfa að vera í samræmi við samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun. Slíkar undanþágur frá friðun vegna ágangs og tjóns færast þannig frá umhverfis- og auðlindaráðherra til Umhverfisstofnunar verði frumvarpið að lögum.

Með þessum breytingum er verið að leggja til skýrari og betri málsmeðferð vegna ágangs og hættu á tjóni af völdum villtra dýra en er að finna í gildandi lögum auk þess að styrkja faglegan grundvöll ákvarðanatöku um aðgerðir til að bregðast við ágangi og tjóni af völdum slíkra dýra.

Í frumvarpinu er einnig það nýmæli að Umhverfisstofnun er falið að taka við og skrá tilkynningar um tjón hjá þeim sem óska eftir að koma slíkum tilkynningum á framfæri. Mikilvægt er að slíkum tilkynningum sé safnað þannig að unnt sé að átta sig á umfangi tjóns af völdum villtra fugla og villtra spendýra. Jafnframt er mælt fyrir um að stofnunin skuli leiðbeina um fyrirbyggjandi aðgerðir vegna tjóns en telja verður að mikilvægt sé að stofnunin hafi ákveðna skyldu til leiðbeininga og fræðslu að þessu leyti.

Í frumvarpinu er fjallað um veiðiaðferðir og er lagt til að notkun barefla við veiðar á fýls-, súlu- og skarfsungum verði alfarið bönnuð ásamt því að ekki verður lengur heimilt að nota fótboga við dýraveiðar. Hvort tveggja er lagt til á grundvelli dýravelferðarsjónarmiða auk þess sem slíkar veiðiaðferðir stangast á við alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að. Heimilt verður samkvæmt frumvarpinu að nota hljóðdeyfa eða hljóðdempara á skotvopn, bæði riffla og haglabyssur, enda uppfylli vopnin skilyrði vopnalaga. Hljóðdeyfar sem notaðir eru á skotvopn við þessar aðstæður dempa skothljóðið niður fyrir sársaukamörk en þau eru hins vegar langt frá því að vera alveg hljóðlaus. Hljóðdeyfar hafa verið notaðir um skeið við hreindýraveiðar enda vernda þeir heyrn veiðimanna og leiðsögumanna með hreindýraveiðum en eru ekki síður ákjósanlegir til að valda ekki umfangsmikilli truflun eða röskun á umhverfi og dýralífi auk þess sem bakslag verður minna og hittni betri.

Almenna reglan við veiðar hérlendis er að einungis sé heimilt að nýta vélknúin ökutæki til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum en óheimilt sé að skjóta frá slíkum tækjum. Í frumvarpinu er að finna réttarbót fyrir þá veiðimenn sem bundnir eru við notkun á hjólastól þannig að þeir geti stundað skotveiðar frá ökutækjum. Með ákvæðinu er reynt að stuðla að því að slíkir aðilar fái aukið svigrúm að lögum til að stunda og njóta frístundaveiða.

Ýmsar umbætur eru lagðar til vegna hreindýraveiða og ákvæða er lúta að leiðsögumönnum með hreindýraveiðum. Ég tel hins vegar ekki sérstaka ástæðu til að rekja þær hér en vísa til X. kafla frumvarpsins.

Hæstv. forseti Ljóst er að það eru ýmis önnur atriði og breytingar frá gildandi lögum í frumvarpinu sem ég tel ekki efni til að fara yfir hér en rakin eru ítarlega í greinargerð með frumvarpinu. Ég tel hins vegar ástæðu að lokum til að minnast nokkrum orðum á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Það er alveg ljóst að það mun taka nokkurn tíma að innleiða helsta stjórntæki frumvarpsins sem er stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir einstakar tegundir villtra fugla og villtra spendýra.

Í II. bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skuli innan tveggja ára frá gildistöku laganna hafa lokið gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir þær tegundir eða stofna sem hingað til hafa sætt tiltekinni nýtingu eða veiðum eða eru líklegir til að valda tjóni.

Í III. bráðabirgðaákvæði er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt, þar til stjórnunar- og verndaráætlanir liggja fyrir samkvæmt II. ákvæði til bráðabirgða, að aflétta friðun og heimila nytjaveiðar, eggjatöku og veiðar til varnar tjóni á tegundum eða stofnum villtra fugla og villtra spendýra og sem mælt er fyrir um í V. kafla, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Um slíka afléttingu friðunar vegna hreindýraveiða fer samkvæmt X. kafla.

Með þessum ákvæðum er tryggt að ekki á að verða nein röskun á hefðbundnum veiðum, hvort sem er til nytja eða vegna tjóns af völdum tiltekinna tegunda, þar til hægt er að fara að vinna eftir hinum nýju stjórntækjum frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.