151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þetta innlegg. Ég vil nefna líka að það má rífast um það hvað sé mannúðlegt eða verndi dýrin og hvað sé best fyrir dýrin. Ég veit ekki varðandi skotveiðarnar, þær særa kannski fleiri fugla en fella. Þetta er mjög skjótvirk aðferð til að deyða dýr, þ.e. að rota ungana, það er varla hægt að gera þetta með skjótari hætti. Ég vil bara nefna frumbyggjaveiðar eins og við getum kannski talið að þetta sé. Á þetta að afleggjast alfarið með einhverjum svona sjónarmiðum? Ég lýsi mig andvígan því að banna þetta alfarið.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra varðandi heimild í 54. gr. frumvarpsins, þ.e. reglugerðarheimildir ráðherra. Mér finnst þær ansi víðtækar, herra forseti, ég verð að segja það. Þar er greint frá því að ráðherra sé heimilt í reglugerð að mæla fyrir nánari framkvæmd laga þessara, eins og tíðkast nú í lögum. En ég vil sérstaklega benda á nokkur atriði þar. Tímans vegna ætla ég bara að benda á b-lið þar sem gert er ráð fyrir því að ráðherra verði heimilt með reglugerð að friða og auka vernd mikilvægra fuglabjarga, eins og það er orðað í frumvarpinu. Mér finnst það bara allt of víðtæk heimild, herra forseti, í hendur ráðherra að friða landsvæði og þarna eru fuglabjörgin tekin með.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um veiðivörslu. Mér finnst skjóta skökku við í 50. og 51. gr. þar sem talað er um veiðivörslu Umhverfisstofnunar. Er þarna verið að færa Umhverfisstofnun eitthvert sérstakt lögregluvald um allt land? Á hún að gegna veiðivörslu um allt land (Forseti hringir.) eftir einhverri eftirlitsáætlun, herra forseti, sem er undanþegin upplýsingalögum?