151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef eftirlit með veiðum væri með þeim hætti að það væri upplýst um það fyrir fram þá er ég ansi hræddur um að það yrði erfitt að taka lögbrjóta. (Gripið fram í.) Ég held að það hljóti að liggja í augum uppi, hv. þingmaður. Til að svara aðeins því sem snýr að setningu reglugerða þá held ég að það sé ekkert óeðlilegt í þessari upptalningu sem er samansafn af því sem fram kemur í lagafrumvarpinu. Þarna nefnir hv. þingmaður sérstaklega fuglabjörgin og fuglabyggðirnar. Það var tekið tillit til athugasemda sem komu fram í umsagnarferlinu varðandi skot í kringum þessi svæði, í 10. gr., að 2 kílómetra regla myndi gilda á varptíma en annars yrði áfram um 500 metra reglu að ræða.

Ég vil síðan taka það fram varðandi eftirlitshlutverk og skyldur Umhverfisstofnunar að þar er ekki um neitt lögregluvald að ræða. Það er alveg skýrt.