151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:25]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sé mikilvægt að þingheimur tali ekki bara um verðbólgu og vexti. Við þurfum að tala miklu oftar um dýr og ekki síst dýravernd. Mig langar að hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að koma í andsvar við mig og svara hugsanlega nokkrum spurningum sem ég get beint til hans hér því að ég veit að hann er hér að hlusta, eðlilega.

Ég hef látið mig dýravernd varða í víðum skilningi þess orðs. Ég hef tekið upp velferð villikatta, ég hef upplýst þjóðina um svokallað blóðmerahald og ég hef vakið athygli á umfangsmiklum veiðum á eina raunverulega landnema Íslands, íslenska refnum, en um 6.000–7.000 refir eru drepnir árlega á Íslandi. Samkvæmt opinberum tölum voru 70.000 refir drepnir á Íslandi á 12 ára tímabili. Mig langar að fá afstöðu hæstv. umhverfisráðherra til þessara veiða, í fyrsta lagi á ref en einnig öðrum tegundum sem ég fjalla um hér á eftir.

Ég hef verið gagnrýninn á að núverandi ríkisstjórn sé ein af fáum í heiminum sem leyfa veiðar á næststærsta dýri jarðar, sem er langreyðurin. Langreyður er í útrýmingarhættu sé litið til heimsválistans. Þetta er mjög sérkennilegt af hálfu ríkisstjórnar þar sem Vinstri græn eru við stjórnvölinn og það er sérkennilegt í ljósi þess að Vinstri græn stýra umhverfisráðuneytinu. Ég veit mætavel að hvalveiðar heyra undir sjávarútvegsráðherra en þetta er ein ríkisstjórn. Mér finnst þetta gagnrýnisvert og mig langar að fá stuðning umhverfisráðherra, sem ég veit að er annt um dýr og er dýraverndunarsinni eins og ég. Ég vil að hann komi í pontu og leggist á árar með okkur og fordæmi þessar veiðar. Við þurfum á öllum höndum að halda. Ég hvet hann til að taka þátt í umræðunni í þessum sal því að hann er ráðherra og það skiptir máli að hann segi skoðun sína hér. Mig grunar að hann sé sammála mér. Við erum bandamenn hér. Í allri vinsemd vil ég hvetja hann til að koma og fordæma þessar veiðar á langreyðum. Þær eru fullkomlega óþarfar, barn síns tíma, tímaskekkja. Samkvæmt síðustu fréttum borga þær sig ekki einu sinni. En ríkisstjórnin hefur leyft einu fyrirtæki að stunda þær þó að þær hafi ekki verið í gangi síðastliðið sumar. Leyfið er fyrir hendi.

Síðast þegar ég vissi voru þessi sömu stjórnvöld líka að skoða hvort heimila ætti veiðar á ákveðnum selategundum, þar með talið á landsel sem er í bráðri útrýmingarhættu hér við land, enda hefur landsel fækkað um 80% við Íslandsstrendur. Fyrr á árinu bárust fréttir um að veiðimenn hefðu óskað eftir að veiða landsel. Ég veit ekki hvort stjórnvöld veittu leyfið en kannski veit hæstv. umhverfisráðherra það. Er búið að leyfa veiðar á selum eða ekki? Landsel hefur fækkað um 80%. Hin tegundin, útselurinn, er líka í nokkurri hættu. Þetta er orðalag frá Náttúrufræðistofnun. Þetta er ekki eitthvert orðalag sem ég er að finna upp. Landselur er í bráðri útrýmingarhættu hér á landi og útselurinn er í nokkurri hættu, eins og það heitir.

Refurinn, hvalurinn, selurinn. Förum í fuglana. Á síðasta þingi barst mér svar frá hæstv. umhverfisráðherra við skriflegri fyrirspurn minni um veiðar á fuglum á válista, eins og það heitir. Þar kemur fram að umhverfisráðherra, en þetta heyrir undir hann, leyfir veiðar á 15 fuglategundum sem eru á skilgreindum válista yfirvalda sem þýðir að þær eru í hættu. Listinn yfir þessa fugla er hér, 15 fuglategundir sem eru ýmist í bráðri hættu, í hættu, í nokkurri hættu eða í yfirvofandi hættu. Þetta er flokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands, þetta eru válistar þeirrar stofnunar. Hvernig stendur á því að við erum með umhverfisráðherra sem er Vinstri grænn og leyfir þetta? Meginreglan er að fuglar eru friðaðir á Íslandi. Einungis fimm fuglategundir má veiða allt árið um kring. Til að veiða hinar þarf leyfi. Þar með talinn er hrafninn. Hann er ein þeirra fuglategunda sem má veiða allt árið um kring. Ég hef áhyggjur af hrafninum. Á hverju einasta ári eru drepnir allt að 3.000 hrafnar og það hefur gerst undanfarin tíu ár. Þessi árlega veiði á hrafninum er talin vera yfir 20% af heildarstofni hans. Það sem er sérstaklega gagnrýnisvert er að hrafninn er ein þeirra fuglategunda sem eru á válista þessara sömu stjórnvalda. Af hverju eru fuglar bæði á válista og á veiðilistum sömu stjórnvalda?

Náttúrufræðistofnun Íslands telur lundann sömuleiðis í bráðri hættu. Samt voru 26.000 lundar veiddir árið 2018. Hvernig stendur á því að við hlustum ekki á sérfræðingana sem hafa skilgreint 15 fuglategundir í hættu? Á sama tíma heimilum við veiðar á þeim. Þetta skiptir máli. Af hverju finnst stjórnvöldum eðlilegt að heimila veiðar á dýrum á válistum? Ég er ekki að amast við öllum veiðum. Ég er að gagnrýna veiðar á fuglategundum og öðrum dýrum sem eru á válistum, hvort sem það er landselurinn, langreyðurin eða 15 fuglategundir. Svo hef ég verið krítískur á refaveiðarnar. Mér finnst ekkert sérstaklega grænt eða sjálfbært í þessari afstöðu ríkisstjórnarinnar.

Ég hef nefnt langreyðarnar, selina og fuglana. Förum í hrossin, förum í blóðmerar. Hvað eru blóðmerar? Blóð er tekið úr fylfullum hryssum til að hægt sé að vinna dýrmætt hormón úr þeim sem síðan er gefið svínum svo að hægt sé að auka frjósemi þeirra. Folöldunum er síðan yfirleitt slátrað. Þetta er stór iðnaður á Íslandi. Ég hef tekið þetta upp á þingi áður og fengið skrifleg svör frá ráðherrum á þá leið að um 5.000 íslenskar hryssur séu notaðar í þessum tilgangi og taka megi fimm lítra af blóði úr hverri hryssu í átta skipti á hverju tímabili. Ég var fyrir stuttu í viðtali í einu stærsta tímariti Svíþjóðar á sviði náttúruverndar. Greinin hét Hið rauða gull Íslands. Hingað kom sænskur blaðamaður sem var að fjalla um þennan iðnað, blóðmerahald á Íslandi. Þar kemur fram að framleiðslan hefur þrefaldast frá 2009. Forsvarsmaður íslenska fyrirtækisins, þess eina sem kaupir þetta blóð og stundar þetta hér á landi, segir:

„Ef varan okkar væri jafn dýr og gull yrðum við gjaldþrota á morgun.“

Þetta er það verðmætt. Sænski blaðamaðurinn sagði að erfitt væri að ræða þessi mál hér á landi enda fyndist henni starfsemin liggja í hálfgerðu þagnargildi. Eða hvað? Veit fólk af þessum iðnaði? Þetta hefur verið stundað lengi á Íslandi, ég veit það. Ég er ekki að segja að íslenskir hrossabændur fari illa með hrossin sín, bara alls ekki. Þeir fara yfirleitt vel með hrossin sín þótt að sjálfsögðu séu dæmi um annað og hafa gripið í þennan iðnað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar samkvæmt skriflegu svari sem ég hef fengið frá ráðherra. Mér finnst tímaskekkja að gera merar fylfullar svo að hægt sé að auka afköst svínaræktunar. Það er einfaldlega vafasamt í mínum huga. Mér finnst við alveg geta dregið línu í sandinn. Ýmsar aðrar þjóðir hafa bannað þetta, t.d. hættu Svíar þessu fyrir 15 árum og nú er umræða á Evrópuþinginu um að banna innflutning á þessum hormónum frá Suður-Ameríku eftir að tvær milljónir undirskrifta söfnuðust.

Herra forseti. Íslenski hesturinn á betra skilið en þessa nýtingu á honum. Eða hvað finnst umhverfisráðherra? Hvað finnst honum um blóðmerahald? Það getur vel verið að hann segi að þetta heyri undir landbúnaðarráðherra. En ég er að leita eftir skoðun hans sem bandamanns í baráttunni fyrir bættri dýravernd á Íslandi.

Að lokum langar mig að minnast á enn eina dýrategundina en það eru minkar. Ekki alls fyrir löngu bárust óhugnanlegar fréttir af stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar í dönskum minkum. Talið er að upprunalega hafi það borist úr fólki yfir í minka en hafi síðan borist stökkbreytt aftur yfir í fólk. Umræða blossaði upp um hugsanlega hættu af áhrifum þessa stökkbreytta afbrigðis veirunnar á þau bóluefni sem til eru og þau mál voru til skoðunar hjá íslenskum stjórnvöldum. Burt séð frá því skulum við líta aðeins á minkarækt á Íslandi. Í dag eru starfrækt hér níu minkabú en þau voru 31 talsins fyrir sex árum. Bein störf eru einungis 30. Það verður að teljast afskaplega lítið í ljósi þess fórnarkostnaðar sem hugsanlega verður af ræktuninni. Ég vil fullyrða að ræktun minka vegna skinns þeirra sé alger tímaskekkja og ekki í samræmi við nútímann þegar kemur að dýravernd. Fjölmargir fataframleiðendur eru löngu hættir að nota skinn af lifandi dýrum. Því til viðbótar hefur skinnaverð verið mun lægra en framleiðslukostnaður skinnanna. Því er erfitt að sjá réttlætinguna á þessum iðnaði. Ég legg því til að hið opinbera geri þeim fáu loðdýrabændum sem eftir eru kleift að hætta starfsemi sinni með því að veita þeim styrk. Hægt er að hugsa sér svipað fyrirkomulag og þegar ríkið styrkir bændur sem þurfa að skera niður sauðfé vegna riðu. Norðmenn hafa ákveðið að banna þessa ræktun frá og með árinu 2025 og mörg önnur lönd í Evrópu hafa nú þegar bannað hana. Hættum loðdýrarækt á Íslandi og gerum þeim örfáu bændum sem enn skrimta í þessum iðnaði kleift að hætta með reisn. Tökum þetta skref, herra forseti. Pelsar eru ekki nauðsynjavara.

Að lokum, herra forseti, finnst mér umræðan um umhverfismál á Íslandi þurfa að breikka. Mér finnst að umhverfismál eigi ekki bara að snúast um grjót og urð heldur einnig um dýrin. Upp á það hefur svo sannarlega vantað hér á landi. Nú hef ég nefnt nokkrar dýrategundir þar sem við getum gert miklu betur. Við getum verið mun framar þegar kemur að dýravernd. Tökum róttækari skref til að vernda dýr, svo að ekki sé talað um þau dýr sem eru í hættu. Mér finnst það svo sjálfsagt. Byrjum þar en tökum líka móralska afstöðu gegn minkarækt, gegn blóðmerahaldi og gegn stórhvalaveiðum.

Ég vil beina þeim orðum til hæstv. umhverfisráðherra að koma með mér í þann leiðangur að lyfta upp málefnum dýra og dýraverndunar. Það væri mjög kærkomið ef hann væri skýr í andsvörum á eftir um afstöðu sína, pólitíska afstöðu sína til þeirra veiða sem ég hef nefnt og hvað hann ætli að gera til að breyta þessu innan ríkisstjórnarinnar. Hann er í valdastöðu (Forseti hringir.) og ég hvet hann til góðra verka, hér eftir sem hingað til.