151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Við ræðum hér villidýrafrumvarp sem hefur átt sér töluvert langan aðdraganda. Það hefur þurft nokkrar atrennur til að komast á þennan stað. Holt og bolt er þetta ágætisfrumvarp, enda byggist það á faglegri og mikilli vinnu í a.m.k. tíu ár. Hrygglengjan í gegnum frumvarpið eru tillögur sérfræðinga sem komu fram í skýrslu nefndar um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra sem var skipuð í júlí 2010 af þáverandi umhverfisráðherra, en því miður náðist ekki að vinna frumvarp á þeim tíma og fyrst núna, þetta löngu síðar, er verið að taka þráðinn upp aftur og vonandi sigla þessu skipi í höfn.

Mig langar að gera hér að umtalsefni þær dýrategundir sem enn þá er lagt til að undanskilja þessum lögum. Það eru hvalir og selir, sjávarspendýrin sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og búa þar við ómögulega stöðu. Léleg og úrelt lög gilda um stöðu þeirra dýrategunda, enda er ein af skýrustu ráðleggingum í villidýraskýrslunni, sem þetta frumvarp byggist á, sú að ný villidýralög skuli ná til bæði sela og hvala. Það tryggir að meginreglur umhverfisréttar nái til þeirra dýra eins og annarra villtra dýra, það hjálpar Íslandi að uppfylla þá alþjóðasamninga á sviði náttúruverndar sem við höfum undirgengist og það er líka nauðsynlegt til að taka á t.d. þeirri stöðu þegar sjávarspendýr veiðast sem meðafli í fiskinet eða til að geta sett einhvers konar leyfiskerfi, einhvers konar gæðakerfi, einhvers konar siða- og umgengnisreglur um hvalaskoðun. Það skref er ekki stigið í frumvarpinu sem við höfum hér til umfjöllunar en engu að síður lýsir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra þeirri skoðun sinni að sjávarspendýr eigi að heyra undir þennan lagabálk, það verði bara að vera næsta skref.

Það er kunnugleg lína vegna þess að það er akkúrat það sem var sagt þegar tekist var á um hvernig skipta skyldi stjórnarmálefnum á milli umhverfis- og auðlindaráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis þegar þau ráðuneyti urðu til við endurskipulagningu Stjórnarráðsins sumarið 2012. Einmitt þá var tregða til þess að færa seli og hvali yfir til hins nýstofnaða umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þá var alveg eðlilegt að segja: Næsta skref verður að gera það. Nú eru liðin nærri níu ár síðan yfirfærsla sjávarspendýra til umhverfis- og auðlindaráðuneytis átti að vera næsta skref og þess vegna er ólíðandi að umhverfis- og auðlindaráðherra skýli sér enn á bak við að þetta eigi að gera næst. Í þessu tilviki er „næst“ núna. Sú staða sem er á milli ráðherra sjávarútvegsmála og umhverfismála endurspeglast í því að þeir kasta sín á milli fyrirspurnum um þessi málefni nánast eins og heitum kartöflum, þær hafa verið nokkrar á þessu kjörtímabili. Er það ekki í höndum þingsins, herra forseti, að leysa þá einfaldlega úr þessari pattstöðu?

Nú er staðan sú að hvalveiðar eru að leggjast af, þær hafa nú lagst af um mestallan heim. Rekstrargrundvöllurinn virðist vera sami og enginn þannig að hvalveiðar eru nánast ekkert stundaðar lengur hér á landi og selur er á válista þannig að öll rök mæla með því, hvort sem það er skýrslan sem hér liggur undir frumvarpinu, alþjóðlegar skuldbindingar, meginreglur umhverfisréttarins eða bara skoðun ráðherrans sem flytur málið með þessum skugga, að færa þessar tegundir undir villidýralögin, ekki sem næsta skref heldur sem þetta skref. Þess vegna beini ég því eindregið til umhverfis- og samgöngunefndar að bæta úr þeim ágalla á annars ágætu frumvarpi ráðherrans og láta ekki pólitíska togstreitu innan ríkisstjórnarinnar, einhverja ákvörðun við ríkisstjórnarborðið, verða til að skapa kyrrstöðu í málefnum sjávarspendýra, láta það ekki ráða för heldur málefnalegu rökin sem segja öll að sjávarspendýr eigi heima í þessum villidýralögum. Ég beini því þess vegna til umhverfis- og samgöngunefndar að bæta úr þessu, að setja hvali og seli inn í villidýralög.