151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

almannavarnir.

443. mál
[16:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessar vangaveltur og tek heils hugar undir þessi sjónarmið sem alltaf þarf að huga að. Og einmitt vegna þess sem hann nefnir í lokin, varðandi þá grein sem nú þegar er í lögunum, þá tel ég ákvæðið sem hér er lagt til vera minna íþyngjandi og þurfi því að skjóta undir það lagastoð. Hér erum við einfaldlega að tryggja ákveðinn sveigjanleika í störfum hins opinbera á neyðarstigi almannavarna. Það er margt sem þarf að meta og almannahagsmuni þarf alltaf að skoða og ákvæðið þarf að vera takmarkað við ákveðið stig almannavarnalaga. Raunar er margt í lögunum komið til ára sinna og ég er að ljúka við nýja almannavarnastefnu þar sem einmitt mun verða kveðið á um að skoða þurfi lögin enn frekar, ekki bara þær breytingar sem ég mun kannski leggjast í á þessu þingi. Þetta ákvæði í 19. gr. mun ég taka inn í þá skoðun af því að ég held að það sé komið til ára sinna, hvernig það er sett fram, vægast sagt. Notkunin á auðvitað alltaf að vera afar takmörkuð og ákvæðið er kannski fullvíðtækt í dag. Það ætti að finna leiðir sem ganga skemur, eins og þessi gerir. Við sjáum á þessari stundu að þetta ákvæði hefur nýst afar vel í almannavarnadeildinni sjálfri, í smitrakningarteyminu sem hefur unnið ótrúlega vinnu þar sem allir eru mjög viljugir til að færa sig um set þegar þörf er á í þá vinnu en líka hér í borginni þar sem starfsmenn íþróttamannvirkja, þar sem ekki hefur verið starfsemi, hafa verið að vinna annaðhvort við skóla eða í starfsemi fyrir heimilislausa. Þetta hefur gengið vel og viljinn hefur líka alltaf verið til staðar, sem er auðvitað afar mikilvægt og við viljum að það sé grundvöllur svona starfsemi á hættustundu almannavarna.

Þannig að ég segi bara: Já, það stendur til að skoða það ákvæði sem hv. þingmaður nefnir og ég tel algjörlega þörf á því. En ég tel líka mikilvægt að koma með þetta ákvæði svo að ekki þurfi að grípa til 19. gr.