151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

frumvörp um stöðu íslenskunnar og mannanöfn.

[13:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir fyrirspurnina og vona að hér getum við náð samstöðu um þá breytingu sem lögð er til í frumvarpi mínu til stjórnarskipunarlaga um að íslensk tunga og íslenskt táknmál öðlist stjórnskipulega stöðu. Vonandi getum við líka náð samstöðu um fleiri breytingar í því frumvarpi, svo ég segi það hér.

Hvað varðar íslenska tungu þá hefur ríkisstjórnin og stjórnvöld lagt ýmsar tillögur hér fyrir Alþingi sem notið hafa víðtæks stuðnings. Sérstaklega vil ég nefna það að fjárframlög hafi verið mjög aukin til að bregðast við tæknibreytingum því að íslenskan þarf að vera gjaldgeng í hinum stafræna heimi. Það er alveg óhætt að segja að þar þurfti átaks við. Þetta er ekki nýtt af nálinni en þar þurfti sannarlega átaks við og ég er mjög ánægð með þá vinnu sem hefur verið unnin á þessu kjörtímabili í þeim efnum.

Hvað varðar frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra, sem hv. þingmaður gerir sérstaklega að umtalsefni, um breytingar á mannanafnalögum, þá vil ég segja það að ég studdi framlagningu þess frumvarps. Ég hef stutt og lagt fram, í gegnum lögin um kynrænt sjálfræði, ákveðnar breytingartillögur til að tryggja aukið frjálsræði þegar kemur að mannanöfnum en þó með þeim skýra fyrirvara að ég taldi mjög mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd færi mjög vel yfir það frumvarp, einmitt út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. hvort þær breytingar í frjálsræðisátt, sem sannanlega má segja að hafi verið kallað eftir að Alþingi taki til umræðu, skapi hættu fyrir íslenskt málkerfi og íslenskar málhefðir. Ég lít svo á að það sé hlutverk nefndarinnar að gera það. Ég hef líka kynnt mér umsagnir og veit að þær eru sumar gagnrýnar, þó alls ekki á alla þætti frumvarpsins en á suma þætti þess. Ég vænti þess að nefndin muni fara mjög vel yfir þetta og komast að niðurstöðu í þeim efnum. Ég held að við getum ekki horft fram hjá því að það hefur verið, eins og ég segi, áhugi á að ræða þessa löggjöf (Forseti hringir.) og ég held að Alþingi eigi ekkert að óttast þá umræðu en þarna þurfum við að vega saman annars vegar frjálsræðisrökin og hins vegar þann vilja sem Alþingi hefur margoft sýnt til (Forseti hringir.) að standa vörð um íslenska málhefð.