151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

frumvörp um stöðu íslenskunnar og mannanöfn.

[13:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tók eftir því að ráðherra notaði mestan tíma til að tala um önnur mál en þetta frumvarp. Ég gat heldur ekki heyrt hæstv. ráðherra lýsa yfir stuðningi við það að þetta frumvarp nái fram að ganga.

Ég ætla að leyfa mér að nota þær fáu sekúndur sem ég hef til að vitna í tvo aðila sem rituðu umsagnir um frumvarpið. Það er annars vegar Hrafn Sveinbjarnarson sem sagði, með leyfi forseta:

„Íslensk mannanöfn eru mikilvæg arfleifð sem er vert að skila sem best til komandi kynslóða. Það er ekki einkamál heldur samfélagslegt mál. Fámenn þjóð með eigið tungumál hefur ekki efni á að glopra þessum menningararfi og sérkennum niður. Sá skaði verður ekki bættur.“

Ég ætla sömuleiðis að leyfa mér að vitna í Ármann Jakobsson en hann segir, með leyfi forseta:

„Langbest er að áfram séu ákvæði í mannanafnalögum um að mannanöfn fylgi íslenskri málhefð.“

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að hvetja hæstv. forsætisráðherra til dáða í þessu máli og afstýra því slysi sem yrði ef þetta frumvarp næði fram að ganga hér á hinu háa Alþingi.