151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

frumvörp um stöðu íslenskunnar og mannanöfn.

[13:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég notaði nú reyndar meiri hlutann af tíma mínum hér áðan til að ræða þetta frumvarp svo að ég komi þeirri leiðréttingu á framfæri við hv. þingmann. Ég vil segja að ég tel að dómsmálaráðherra hafi undirbúið þetta mál vel. Það er vandmeðfarið verkefni að vega saman annars vegar þau rök sem eru með auknu frjálsræði í mannanafnalöggjöfinni og hins vegar íslenska málhefð. Við skulum líka vera meðvituð um að núverandi fyrirkomulag kann ekki endilega að vera það allra besta sem hægt er að hafa á þessum málum. Það er tiltölulega nýtt af nálinni og ekkert athugavert við að lagðar séu til breytingar á því. Ég lít hins vegar svo á, og það hefur legið fyrir, að það sé að sjálfsögðu mikilvægt að þetta mál fái opna umræðu, að Alþingi fari vel yfir þessar umsagnir og vegi og meti saman þessi eðlilegu sjónarmið. Það mun ég sjálf gera þegar að afgreiðslu málsins kemur. En ég treysti nefndinni reyndar vel til að vinna þá vinnu með nákvæmlega þau sjónarmið í huga. Ég vil því segja að ég tel að dómsmálaráðherra hafi undirbúið þetta mál vel. Ég held að þetta sé vandmeðfarið (Forseti hringir.) og hún hafi gert vel í því að halda á því verkefni.