151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

lög um sjávarspendýr.

[14:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þær viðræður sem hafa verið á milli ráðuneytanna áttu sér stað á milli starfsmanna ráðuneytanna í aðdraganda frumvarps umhverfisráðherra um þessi mál. Ég veit ekki annað en að þar hafi menn frá báðum ráðuneytum unnið af heilindum að framgangi þessa máls. Þannig háttar til að þau lög sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni falla undir mitt málefnasvið sem sjávarútvegsráðherra og engin áform voru uppi um það af minni hálfu að endurskoða þá löggjöf. Sömuleiðis byggði mín afstaða á því að málefni sela og hvala hafa verið vistuð innan Hafrannsóknastofnunar Íslands, sem er sú undirstofnun ráðuneytisins og sú stofnun ríkisins sem hefur mesta þekkingu á báðum þessum dýrategundum. Ég sá ekki ástæðu til að færa það undan viðkomandi stofnun og væri miklu flóknara verk en birtist í frumvarpi umhverfisráðherra að færa þessi verkefni undan Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneyti. Á því byggði sú afstaða sem hv. þingmaður er að kalla eftir frá mér varðandi það ágæta frumvarp að öðru leyti sem umhverfisráðherra leggur fram um villidýr á Íslandi.