151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og upplýsingarnar sem ég hefði getað leyft mér að búast við að væru örlítið ítarlegri vegna þess að þegar er farið að tala um hlutina af það mikilli nákvæmni að talað er um þorra þjóðarinnar, að talað er um tímasetningu, fyrir mitt ár, þá hefði maður kannski getað átt von á örlítið nákvæmari upplýsingum, líka hvaða óformlegu upplýsingar það eru sem hæstv. ráðherra er að vísa til.

En mig langar að víkja talinu að öðru. Nú hefur öflun bóluefna verið útvistað, eins og mætti taka til orða, til Evrópusambandsins. Evrópusambandið hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir framgöngu sína í þessu máli. Stefna Evrópusambandsins miðaðist við að allir stæðu saman eins og hin þýska Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lagði ofuráherslu á. En þrátt fyrir þetta þá tryggði Þýskaland sér aukreitis 30 milljón skammta og sætti sig greinilega ekki við, og sýnir það í verki, vinnubrögð Evrópusambandsins. Evrópusambandið er gagnrýnt fyrir að hafa leitast við að taka að sér hlutverk á sviði heilbrigðismála sem það hafi hvorki skipulagslega né fjárhagslega burði til að gegna, hvað þá í heimsfaraldri.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er hún ánægð með það fyrirkomulag sem varð ofan á hér með þessari útvistun (Forseti hringir.) til Evrópusambandsins og er hún ánægð með það að miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið séu hendur okkar bundnar, (Forseti hringir.) ólíkt t.d. Ísraelsmönnum sem hafa náð feikna árangri í því að afla bóluefnis utan þessara vébanda (Forseti hringir.) sem Evrópusambandið skapar okkur?