151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég þakka góð viðbrögð ráðherra við fyrirspurninni. Varðandi það að alltaf þegar við ræðum það að færa einn hóp upp þá þurfum við að ræða hvernig við færum einhvern niður á móti, þá verður ekki horft fram hjá því að þeir einstaklingar sem falla væntanlega undir hóp níu og eru í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra og efnahagslegra aðstæðna, eru gjarnan í þess háttar búsetuúrræðum að ef einn einstaklingur í þeim hópi smitast þá leiðir það mögulega til hópsmits. Þannig að það eru, hefði maður haldið, lýðheilsuleg rök fyrir því að færa þennan hóp upp. Með því væri verið að vinna í þágu allra hópanna sem þessi hópur væri færður upp fyrir, vegna þess að þetta snýst ekki um að hjálpa þessum hópi einum og sér, heldur að koma í veg fyrir að hann verði útsettir fyrir smiti og útsettur fyrir því að smita aðra.

Nú langar mig að spyrja vegna frétta af töfum á afhendingu bóluefnis um allan heim, hvort rætt hafi verið að láta forgangsröðun hér innan lands ríma einhvern veginn við þátttöku okkar í COVAX-samstarfinu, vegna þess að við eigum hér við heimsfaraldur og svo lengi sem þessi faraldur geisar einhvers staðar er hann alltaf ógn hjá okkur. Væri hægt að draga strik einhvers staðar í miðja forgangsröðunina og segja: Þegar við erum komin niður af þessu striki þurfum að leggja inn í fjölþjóðasamstarfið svo allra viðkvæmustu hóparnir í fátækari löndum verði ekki settir á eftir hópum sem eru fjarri því að vera viðkvæmir hér á landi, og sýna þannig samstöðu með heiminum í heimsfaraldri?