151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ósköp var þetta nú Miðflokkslegt. En gott og vel, það er bara partur af veruleikanum hér í þingsal, það er eitthvað sem við verðum að reyna að hafa skilning á. Ég bendi hv. þingmanni og félögum hennar í þingflokki Miðflokksins, sem eru ekki hressir í dag frekar en aðra daga, að vefurinn bóluefni.is er ágætisvettvangur þar sem staðreyndir eru leiddar fram og þar er engin óreiða, ef hv. þingmaður myndi leggja sig fram um að fylgjast með þar. Það er ekki staðfest að Þýskaland og Danmörk hafi farið fram hjá samningum. Við viljum, virðulegur forseti, standa við þá samninga sem við höfum gert. Það er heldur ekki víst, þó að hv. þingmaður fari hér mikinn, að slíkar tilfæringar myndu bera árangur. Það sem sóttvarnalæknir ræddi og hefur rætt eru hins vegar hugmyndir sem hafa verið uppi um rannsóknir en ekki kaup á bóluefni. Það eru þær hugmyndir sem hafa verið uppi en þær hafa ekki falið í sér opinberar umræður eða umræður á vettvangi stjórnvalda.

Ég legg áherslu á það að hversu mikilvægt það er og hversu mikil gæfa hefur verið fólgin í því að það er undantekning að þingmenn, þingflokkar og stjórnmálafólk hafi reynt að gera Covid-19 bólusetningu og sóttvarnaráðstafanir að pólitísku bitbeini. Því miður stendur hv. þingmaður hér fyrir þá undantekningu.