151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[16:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það var ekki ætlan mín að ýja að því með neinum hætti að hæstv. ráðherra væri að leyna upplýsingum, alls ekki. Þvert á móti er það þakkarvert hvað hæstv. ráðherra hefur verið dugmikil við að upplýsa þingið og þjóð um aðstæður. En upplifun margra er á þá leið að misvísandi upplýsingar sé að ræða og það sé ekki gott að átta sig á raunverulegum aðstæðum, hvað sé í gangi. Við í Samfylkingunni fögnum því auðvitað að unnið sé ötullega úr því að greiða úr, ég vil ekki kalla það upplýsingaóreiðu en misvísandi upplýsingum, og ég held að það sé ekki nokkurt áhorfsmál að ráðherra hefur átt gott samstarf við alla samstarfsaðila og þingið um skipulagningu og framkvæmd bólusetningar.

Talandi um væntingastjórnun og lítinn fyrirsjáanleika er það auðvitað einkennandi við þessar aðstæður. Í viðtali á Bylgjunni um helgina sagðist sóttvarnalæknir að við þyrftum að búa okkur undir þrjár sviðsmyndir í þessu. Fyrsta sviðsmyndin væri sú að það gangi allt upp og við fáum bóluefni hratt. Það er ekki víst að það gangi upp. Önnur sviðsmyndin væri sú að það komi eitthvað upp á þannig að það verði uppihald í framleiðslu bóluefnis. Síðan þyrftum við að vera undir það búin að framleiðsluplan og ferlið allt hiksti verulega, bóluefni virki ekki eða alvarlegar aukaverkanir komi upp og fólk vilji ekki láta bólusetja sig. Eru stjórnvöld að vinna út frá þessum sviðsmyndum eða einhverjum öðrum og þá hvaða sviðsmyndum?

Nú hafa einhverjir gagnrýnt það ferli sem býr að baki því að útvega þjóðinni bóluefni gegnum ESB. Ég tek ekki undir þær gagnrýnisraddir en hvet aftur á móti ráðherra til dáða við að bólusetja þjóðirnar sem allra fyrst, og það þarf sjálfsagt þykir til. En hefði það nokkuð verið raunhæft og skynsamlegt (Forseti hringir.) að fara fram hjá Evrópusambandinu í þessu máli? Hæstv. ráðherra hefur svarað því og ég tek undir með henni. En varðandi hugsanlega (Forseti hringir.) bólusetningu og hugsanlegan samning við Pfizer um bólusetningu allra þjóðarinnar, telur hæstv. ráðherra ástæðu til og eðlilegt að það sé gert án samráðs við (Forseti hringir.) aðrar Evrópuþjóðir eða hugsanlega ESB?