151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[18:54]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu gagnmerka frumvarpi. Mig langar aðeins að reifa eitt eða tvö atriði. Það kom fram hjá ráðherra að sameiningarmál eru jafnan hitamál. Þetta eru tilfinningamál. Það liggur við að andstaða við sameiningar sveitarfélaga gangi í erfðir eða gangi mann fram af manni og þvert á kynslóðir. Það er kannski eðlilegt. Íbúar í litlum samfélögum eru mjög tengdir sínu umhverfi og finnst kannski að breytingar og sameiningar séu ekki af hinu góða og andúð og varúð gagnvart nágrannanum er oft og tíðum inngróin.

Ég leyfi mér að spyrja ráðherra hvað það sé sem hvetji sérstaklega til þess að ríkið hafi atbeina að þessu máli núna og komi að því að ýta undir sameiningar. Ég geri mér svo sem grein fyrir þeim atriðum sem hann nefndi, en síðustu hundrað ár hefur sveitarfélögum verið að fækka gríðarlega. Þeim hefur fækkað um 64% frá því um 1910, þá voru þau fleiri en 200 en eru líklega 72. Hvað ýtir undir þetta núna? Síðan spyr ég: Hvaða rök voru tilgreind árið 2011 þegar lágmarksíbúafjöldi hvarf úr lögunum?