151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

Lúganósamningurinn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum.

465. mál
[21:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Í ljósi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er lagt til með frumvarpinu að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða sem tryggir að unnt verði að ljúka málum sem varða Bretland og dæmd höfðu verið eða bárust íslenskum dómstólum fyrir árslok 2020 á grundvelli reglna Lúganósamningsins.

Líkt og kunnugt er tilkynntu bresk stjórnvöld hinn 29. mars 2017 formlega um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var þar. Útganga Bretlands varð þó ekki að veruleika fyrr en 31. janúar 2020. Tók þá við svonefnt aðlögunartímabil til loka síðasta árs en í því fólst m.a. skuldbinding Bretlands til að framfylgja reglum ESB eftir að aðild lyki, þar með töldum Lúganósamningnum, sem Bretland var aðili að í gegnum aðild sína að Evrópusambandinu. Á þessu tímabili varð enn fremur engin breyting á sambandi Íslands og Bretlands að þessu leyti. Framangreindu aðlögunartímabili lauk þann 31. desember 2020 og er Bretland ekki lengur aðili að Lúganósamningnum. Rétt er að taka það fram í því sambandi að í samningum þeim sem gerðir voru á milli Bretlands og Evrópusambandsins undir lok síðasta árs er ekki vikið að áframhaldandi samstarfi á því réttarsviði sem Lúganósamningurinn tekur til. Þá er rétt að geta þess að þann 8. apríl 2020 sótti Bretland um sjálfstæða aðild að Lúganósamningnum en samningaviðræðum þar að lútandi er enn ólokið.

Vegna hagsmuna málsaðila er mikilvægt að mál sem hafin voru undir reglum Lúganósamningsins ónýtist ekki við það eitt að Bretland hefur gengið úr Evrópusambandinu. Til að tryggja þessa hagsmuni er lagt til með frumvarpinu að um þau mál sem íslenskum dómstólum bárust til meðferðar fyrir 1. janúar 2021 fari eftir ákvæðum Lúganósamningsins, eigi þau á annað borð undir hann. Jafnframt er lagt til að það sama gildi um mál sem íslenskum dómstólum berast til meðferðar eftir það tímamark, enda grundvallist þau á dómi sem var kveðinn upp í Bretlandi fyrir árslok 2020. Þar er um að ræða mál er varða staðfestingu á aðfararhæfi dóms.

Loks er rétt að taka það fram að Bretland hefur þegar tryggt með lagasetningu að þar í landi verði farið með hliðstæð íslensk mál eftir ákvæðum Lúganósamningsins og gagnkvæmni er því nú þegar tryggð.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.