151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi.

123. mál
[22:14]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu sem ég hef mælt fyrir áður. Þetta er í þriðja sinn sem ég legg hana fram og með mér á henni eru allir þingmenn Miðflokksins. Hún kveður á um að Alþingi álykti að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa lagafrumvarp þar sem kveðið verði á um ráðstafanir sem leiði til þess að eldsneytisverð í millilandaflugi verði jafnað á milli flugvalla.

Samkvæmt lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, skal jafna flutningskostnað á olíuvörum eins og nánar er þar kveðið á um. Markmið laganna er að tryggja að eldsneytisverð sé hið sama um allt land til að jafna búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja.

Jöfnun á flutningskostnaði á hins vegar ekki við um eldsneyti sem er ætlað til útflutnings og fellur þar undir eldsneyti til millilandaflugs. Því er eldsneyti dýrara á millilandaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík og Reykjavík.

Með tillögunni er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi lagafrumvarp í þá veru að breyting verði á til að verð á eldsneyti í millilandaflugi verði jafnað. Slík breyting myndi styrkja stöðu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og ýta undir dreifingu ferðamanna um landið.

Ég vænti þess að tillagan rati til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að umræðu hér lokinni.