151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

samfélagstúlkun.

124. mál
[22:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Hér er hreyft mjög merkilegu og nauðsynlegu máli og ég er mjög ánægður með það og stoltur af því að vera einn af flutningsmönnum þess. Það er öllum ljóst að á Íslandi hefur þeim fjölgað mjög undanfarin ár sem tala annað mál en íslensku, hafa annað móðurmál. Sú flóra stækkar í sífellu og sífellt fjölgar þeim tungumálum sem eru í gangi, eins og maður segir, í þjóðfélaginu. Við verðum oft og tíðum vör við það, og eiginlega á hverjum degi, að þeir sem ekki geta tjáð sig á íslensku, og eru kannski ekki sleipir í alþjóðamálinu ensku, og hafa ekki aðgang að túlkum standa höllum fæti hvað varðar þjónustu. Við getum tekið einfalda athöfn eins og þá að fara á heilsugæslustöð og þurfa að útskýra fyrir lækni hvað það er sem hrjáir þig. Ef fólk getur ekki tjáð sig á íslensku og ekki heldur á alþjóðlegu máli þá er það illa sett og getur orðið fyrir skaða og tjóni.

Við höfum líka tekið eftir því nú í Covid-faraldrinum að það hefur verið mjög nauðsynlegt — við brenndum okkur á því í upphafi faraldursins að vera ekki nógu fljót eða nógu rösk til þess — að koma upplýsingum á framfæri á öðrum málum en íslensku. Það er enginn smáfjöldi sem við erum að tala um, herra forseti, sem er hér á landi og er með annað tungumál en íslensku sem fyrsta mál. Það eru væntanlega í kringum 50.000–60.000 manns eða u.þ.b. 12% þjóðarinnar, ég held að ég hafi séð þá tölu nýlega. Ef þetta mál gengi fram þannig að tekið yrði til óspilltra málanna við að lagfæra þetta misrétti, sem ég vil kalla svo, myndi það gjörbreyta stöðu og líka gerbreyta réttarstöðu þess stóra hóps sem ekki er ekki fær um að tjá sig vel á íslensku.

Ég undrast það í sjálfu sér að ekki sé mikill áhugi á þessu máli, það eru fáir sem hafa séð sér fært að vera við umræðuna og við erum bara tvö, held ég, sem tökum til máls. Ég trúi því ekki að það sé vegna þess að þingmenn yfirleitt hafi ekki áhuga á málinu. Annað eins er nú rætt og skrafað í pontu salarins að maður skyldi ætla að hér væri fullt af góðu fólki sem vildi leggja tillögunni lið. En ég tek það svo að menn hafi kannski bara verið orðnir syfjaðir, það er komið langt fram á daginn, og hafi þess vegna horfið frá því að taka þátt í þessari umræðu.

Eins og stundum áður þá er það þannig að Miðflokkurinn er til í að taka af skarið og koma fram með tillögur sem skipta máli, í málum sem skipta máli, í stað þess að vera hér með eitthvert froðusnakk. Ég vona að allt það góða fólk sem er hér inni taki þessu máli fagnandi þegar það gengur til nefndar og komi sterkt til leiks í síðari umr. Vonandi verður málið ekki svæft í nefnd, það er allt of stórt til þess. Ég vonast svo sannarlega eftir því að málið komi aftur hingað inn í sal til síðari umr. og verði að lokum samþykkt hér á þinginu. Hér er margt gott fólk sem ber málefni þessa stóra hóps fyrir brjósti. Því fólki öllu gefst nú kostur á því að láta muna um sig og styðja þetta framfaramál.