151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[22:35]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að kanna hagkvæmni og möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð sem meðhöndli mestallt eða allt sorp sem ekki er unnt að endurvinna hér á landi. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar fyrir 1. apríl 2021.“

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég mæli fyrir þessari tillögu minni, þetta er í þriðja sinn sem tillagan er lögð fram á þinginu. Tillaga þessi var fyrst flutt á 149. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Tillagan var aftur lögð fram á 150. löggjafarþingi og gekk til umhverfis- og samgöngunefndar sem sendi málið til umsagnar. Er tillagan nú lögð fram að nýju og þá að teknu tilliti til umsagna sem bárust við síðustu framlagningu málsins á síðasta þingi, en þá bárust alls sjö umsagnir við tillögu umhverfis- og samgöngunefndar og var engin þeirra neikvæð en flestar fremur jákvæðar í garð tillögunnar.

Samband íslenskra sveitarfélaga sendir mjög ítarlega umsögn sem var jákvæð í garð tillögunnar og segir hana að mörgu leyti falla vel að áherslum sambandsins og segir síðan, með leyfi herra forseta:

„Samanborið við urðun er brennsla úrgangs með fullnægjandi orkuvinnslu umhverfisvænni kostur. Í dag skortir innlenda innviði til brennslu með orkunýtingu sem telst til endurnýtingar og útflutningur úrgangs til slíkrar brennslu, eins og hafinn er á Suðurlandi, breytir að líkindum ekki þessari staðreynd. […] Hins vegar stríðir útflutningur úrgangsins þvert gegn þeirri meginreglu umhverfisréttar að leysa skuli mengunarmál eins nálægt upprunastað og kostur er. Auk þess má benda á að með úrgangi sem sendur er úr landi fylgja fjármunir, sem ekki nýtast til uppbyggingar í málaflokknum hér á landi. Útflutningur úrgangs orkar ekki einungis tvímælis út frá umhverfis- og fjárhagslegum sjónarmiðum heldur einnig almenningsáliti hér á landi og í öðrum löndum.“

Það má segja að í þessum orðum sé einmitt að finna meginrökin fyrir málinu. Útflutningur eða urðun sorps getur ekki talist framtíðarlausn í þessum málaflokki. Að auki bárust umsagnir frá Kölku sorpeyðingarstöð og Sorpu, sem fagnar í meginatriðum tillögunni, frá Hrunamannahreppi þar sem sveitarstjórn telur skynsamlegt að málið verði skoðað frekar, frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, þar sem segir að vinna þurfi markvisst að því að draga úr umfangi sorps og komast verði út úr þeirri skammtímalausn sem felst í urðun sorps í því gríðarlega magni sem nú er. Þá sendi Stefán Guðsteinsson umsögn og telur brennslu besta kostinn til meðhöndlunar brennanlegs úrgangs. Umhverfisstofnun sendi umsögn og greindi frá því að vinna væri hafin við að kanna þörf á brennslustöð.

Ýmislegt hefur gerst frá því þessi tillaga var lögð fram í haust, herra forseti. Nýleg skýrsla sem umhverfisráðuneytið lét vinna og kynnti fyrir nokkrum dögum ber heitið Greining á þörf fyrir sorpbrennslustöðvar á Íslandi. Þegar skýrslan var kynnt sagði hæstv. ráðherra að hún væri mikilvægt innlegg í umræðu um tilhögun sorpbrennslumála á Íslandi og stæði til að vinna að málinu áfram í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Niðurstöður þeirrar skýrslu eru í stuttu máli þær að við óbreytt ástand verður brennanlegur úrgangur frá 190.000–210.000 tonn á ári en með því að fara að markmiðum Evrópusambandsins um meðhöndlun úrgangs þyrfti væntanlega að brenna um 90.000–120.000 tonn af sorpi sem þá þyrfti annaðhvort að urða eða brenna hérlendis eða erlendis.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi 12. janúar sl. drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021–2032. Drögin hafi verið sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda undir heitinu Í átt að hringrásarhagkerfi. Um nokkra hríð hefur staðið yfir vinna við mótun þessarar stefnu. Í drögum er að finna yfirlit yfir allar aðgerðir sem ráðuneytið telur nauðsynlegt að grípa til. Í stuttu máli eru 24 aðgerðir á þeim lista en þar er ekki að finna nein áform um að reisa sorpbrennslustöð. Í 24 aðgerðum um hringrásarhagkerfið er engin um það að hefja vinnu við að reisa sorpbrennslustöð. Í kafla í drögunum, kafla 3.4.8, sem ber heitið Framtíðarskipan brennslumála í landinu, kemur fram m.a. að samkvæmt úrgangsþríhyrningnum sé ákjósanlegra með tilliti til umhverfis að ráðstöfunarleið úrgangs sé brennsla með orkunýtingu fremur en urðun. Einnig kemur fram að árið 2035 verður enn fremur einungis heimilt að urða að hámarki 10% þess heimilisúrgangs sem fellur til, samanber ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins frá 2018.

Þá er í drögunum einnig að finna mat á áætlaðri brennsluþörf til ársins — árið kemur ekki fram — 2030 sé 40.000–100.000 tonn árlega á landsvísu sem ég tel mjög bjartsýnar tölur. Þá segir í drögunum:

„Í athuguninni voru ræddir þrír möguleikar til að koma til móts við brennsluþörfina sem áætluð var: 1) ein stór sorpbrennslustöð á SV-landi (brennslugeta 90–100 þús. tonn á ári), 2) fimm minni sorpbrennslustöðvar dreifðar um landið (brennslugeta hverrar á bilinu 1.400–78.000 tonn á ári) og 3) útflutningur til brennslu. Niðurstaðan varð að síðastnefnda leiðin gæti hentað sem lausn til skamms tíma en að ekki sé vænlegt að líta til útflutnings sem framtíðarlausnar.“

Þetta vissum við nú fyrir löngu. Við hefðum getað sparað þessar hugrenningar. Auðvitað er ekkert vit í því að flytja sorpið út til brennslu erlendis. Auðvitað er ekkert vit í því að urða sorpið til langframa. Þetta höfum við bent á hér í sölum Alþingis í mörg ár, allt frá því að þessi tillaga kom fyrst fram. En batnandi manni er best að lifa og það er gott að menn séu komnir að sömu niðurstöðu, að þetta gangi ekki lengur. En þá verður líka að fara að gera eitthvað, þá þarf líka að fara að taka til hendinni. Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Eitt er þó grundvallaratriði. Það er að við val á stærð sorpbrennslustöðvar eða -stöðva verði þess gætt að sorpbrennsla komi ekki til með að keppa um úrgang við endurvinnslufarvegi. Úrgangur sem hæfur er til endurvinnslu má ekki rata í brennsluofn.“

Herra forseti. Menn eru dauðhræddir við að hugsanlega yrði of mikið brennt. Það yrði náttúrlega skelfilegt. En í dag? Við urðum þetta allt í dag, 200.000 tonn á ári. Það má nú vera einhver millivegur á þessu að vera dauðhræddur við að brenna eitthvað eða urða allt sorpið. Það má vera millivegur.

Svo segir:

„Það hefur orðið reyndin í mörgum ríkjum sem byggt hafa upp innviði til sorpbrennslu og er nauðsynlegt að læra af reynslu þeirra.“

Menn óttast sem sagt að hugsanlega hlaupi menn fram úr sér og brenni of mikið. Ég held að við þurfum ekki að óttast það, a.m.k. ekki fyrsta kastið.

Loks segir í skýrslunni:

„Ráðuneytið telur mikilvægt að sveitarstjórnir, áhugasamir einkaaðilar og ríkið taki höndum saman um að fjalla um framtíðarskipan brennslumála í landinu og móti næstu skref í málinu.“

Herra forseti. Hver er niðurstaðan? Hún er vonbrigði. Hér segir í raun og veru að ráðuneytið ætli ekki að halda áfram með þetta mál, það búist við að einhver taki þennan bolta, sveitarfélög, einkaaðilar, og haldi áfram með það. Okkar tillaga, sem flytjum þessa tillögu, er sú að ríkið leiði þessa vinnu og fái til samstarfs aðila til að koma þessu máli áfram. Ráðuneytið segir pass, það segir í raun og veru pass, a.m.k. eru næstu skref í mikilli óvissu.

Ég get að mörgu leyti tekið undir þessi orð en taka þarf afgerandi forystu í þessu máli. Það er það sem þessi tillaga, sem ég hér kynni, gengur út á, að ráðherra láti fara fram könnun á hagkvæmni og vinni eftir atvikum þá könnun í samstarfi við sveitarfélögin og áhugasama einkaaðila; í raun og veru að ráðherra leiði þessa vinnu og framkvæmi hana, gangi alla leið. Nú eru menn búnir að uppgötva það sem við töldum okkur vita, þ.e. að ekki sé hægt að halda áfram að flytja þetta út eða urða þetta. Þess vegna sé eina leiðin að auka endurvinnslu. Það er hið besta mál. En við sitjum alltaf uppi með, samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar, a.m.k. 100.000 tonn sem þarf að brenna. Trúlega er það mjög bjartsýnt, trúlega sitjum við uppi með meira magn en það, en við skulum láta það gott heita.

Herra forseti. Það er því enn full þörf á að samþykkja þessa þingsályktunartillögu þó að það verði að viðurkennast að ég er afskaplega stoltur yfir því að hæstv. ráðherra skuli hafa stigið skref í þá átt sem lagt er til í tillögunni. Ég verð þó að benda á að nauðsynlegt er að halda áfram á þessari braut. Það liggur því fyrir að næsta skref er að kanna hagkvæmni þess að reisa sorpbrennslustöð. Menn hafa velt því fyrir sér, í skýrslunni sem ég nefndi, hvar hún verði best staðsett og hvort slíka stöð skuli reisa á einum eða fleiri stöðum á landinu. Ljóst er í þessum efnum að stærðarhagkvæmni er einn af þeim þáttum sem skiptir mestu þegar kostnaður við bygginguna er metinn og þannig þarf að ákvarða stærð hennar. Einnig þarf að taka mið af nálægð við þau svæði þar sem úrgangurinn fellur til, þ.e. fjölmennustu svæðin, og þess hvar hagkvæmast er að nýta orkuna sem til fellur við brennsluna, bæði rafmagn og hitaorku.

Við búum svo vel hér á suðvesturhorninu að nægur er hitinn og nægt er rafmagnið. Hugsanlega má fara einhverja millileið. Hugsanlega má hafa tvær brennslur eða staðsetja hana miðsvæðis, kannski ekki á miðju höfuðborgarsvæðinu, en þetta þarf auðvitað að skoða. Þetta er hluti af því sem við leggjum til, að þetta verði skoðað, að hagkvæmni þess verði skoðuð.

Ljóst er einnig að heildarmagn brennanlegs úrgangs sem fellur til hér á landi er aldrei undir 100.000 tonnum, líklega fremur 120.000 tonn eða meira. Og verður þá að taka mið af breytingum á neyslu, aukningu á neyslu og fjölgun íbúa og stóraukningu í endurvinnslu. Svo er hér miðað við minnsta magn eins og framtíðina lítur út núna.

Herra forseti. Um fátt er meira rætt nú um stundir en mengun þá sem stafar frá mannkyninu og að móðir jörð þoli illa þá meðferð sem við bjóðum upp á. Eitt af þeim vandamálum sem að steðja er hvað eigi að gera við allt það sorp sem við skiljum eftir okkur. Við komumst vart upp með að henda því frá okkur lengur. Því erum við sífellt að leitast við að finna leiðir til að farga úrganginum, svo að minnstar afleiðingar hafi fyrir náttúruna. Í gegnum aldirnar kom þetta sannarlega lítið að sök þar sem úrgangurinn brotnaði auðveldlega niður í náttúrunni, auk þess sem búseta var lengst af svo dreifð að úrgangur eins truflaði aðra lítt. Síðan kom það til að mannkynið taldi einfaldast að grafa sorp í jörðu nema sjórinn væri nærri því að þá var því einfaldlega kastað í hann og þar með hvarf vandamálið. En á síðustu áratugum hefur gerð sorps breyst mikið og sá úrgangur brotnar ekki auðveldlega niður í náttúrunni eins og kannski var áður þegar samsetning hans var önnur en nú. Með framförum í tækni og ekki síst efnameðferð hefur magn skaðlegs úrgangs stóraukist og niðurbrot orðið miklu tafsamara en áður og jafnvel svo að slíkt taki hundruð eða þúsundir ára. Við getum ekki verið þekkt fyrir það lengur, herra forseti, að urða sorpið okkar eða flytja það út.