151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[23:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að biðjast afsökunar ef ég er eitthvað að blanda mér í þáttinn Miðflokkurinn talar við Miðflokkinn og ég hafi móðgað hv. þm. Þorstein Sæmundsson sem fannst ég vera mjög gamaldags í viðhorfum. Það er virkilega gaman ef við getum farið að ræða málið og tekist á um það á þeim forsendum. En ég verð að segja það að í Mosfellsbæ er nú oft gott að vera í túninu heima og við erum reyndar svo heppin að hafa allmarga bæjarhóla eða fell og ég er líka vön að ganga á það þannig að ég er alveg vön að sjá svolítið vel yfir.

Að því sögðu þá sé ég, þegar ég les greinargerðina betur, að í lok hennar er einmitt komið svolítið inn á þá þætti sem ég var að velta fyrir mér, sem er aðkoma sveitarfélaganna að þessum ákvörðunum. Ég vil ekki að hv. þingmaður misskilji ræðu mína hér, að ég væri á móti því sem hér er lagt til. Það sem ég var eingöngu að tala um er að það þyrfti jafnframt að taka heildarsýn á úrgangsmálin því ég held að ekki sé hægt að taka það úr sambandi, þ.e. sorpbrennslan og svo gas- og jarðgerðarstöð og urðun. Þetta eru þrír þættir sem við verðum að hafa í okkar úrgangsstjórnun.

Mig langar að velta þeirri spurningu upp og spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að eðlilegt sé að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að úrgangsmálum. Það var í rauninni það sem ég var að ræða í ræðu minni og taldi þingmaðurinn mig vera fasta í túninu heima. Það kann einmitt að vera svolítið reynslan í þessum málaflokki á síðustu áratugum, alla vega jafn lengi og ég þekki það, menn hafa stöðugt verið að bítast á um það. Enginn vill t.d. urðunarstað innan sinna sveitarfélagamarka og það að byggja gas- og jarðgerðarstöð var heilmikið átak og sveitarfélög eiga erfitt með að koma sér saman um jafn einfalt atriði og hvernig sé eðlilegt að flokka sorp.