151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[23:24]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig um þetta mál. Ég er afskaplega ánægður með hve undirtektirnar eru góðar. Ég ætla að nýta hluta af mínum tíma til að svara nokkrum vangaveltum sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var með í sinni ræðu, ýmsum hugleiðingum, ég svara því kannski síðar í ræðunni.

Ég átti eftir að tala um ýmislegt eins og t.d. hvað við erum að urða mikið á ári. Ég sendi fyrirspurn til umhverfisráðherra á síðasta þingi, mál nr. 234, um urðunarstaði úrgangs. Þar kom fram að urðunarstaðir sem eru með starfsleyfi eru 24 talsins. Það kemur einnig fram að urðuð voru alls vel yfir 200.000 tonn á 24 urðunarstöðum á árinu 2018, þannig að umfangið sé ljóst. Þetta er fyrir utan óvirkan úrgang og ýmislegt svoleiðis, byggingarleifar t.d., það er ekki talið þarna með. Við erum að tala um heimilissorp og slíkan úrgang. Helstu urðunarstaðir voru auðvitað Álfsnes þar sem urðuð voru rúmlega 140.000 tonn og síðan Fíflholt á Mýrum, yfir 15.000 tonn, og einnig Stekkjavík við Blönduós þar sem urðuð voru yfir 20.000 tonn á sama ári. Þetta eru helstu urðunarstaðirnir. Það eru líka nokkrir minni urðunarstaðir um allt land og samtals eru þetta vel yfir 200.000 tonn.

Það er einnig athyglisvert, herra forseti, að athuga svör ráðuneytisins um gamla urðunarstaði. Það eru tilgreindir hátt í 50 gamlir urðunarstaðir víða um land og þar af eru 16 gamlir urðunarstaðir þekktir í Reykjavík. Sumir af þessum stöðum eru taldir mengaðir, hugsanlega mengaðir, og það er vandamál sem við þurfum einhvern tímann að takast á við. Í ljósi þessa getum við ekki haldið áfram að urða okkar úrgang og sérstaklega ekki úrgang sem eyðist seint og illa og eitrar jafnvel út frá sér eins og oft er raunin með úrgang frá mannskepnunni. En það er einnig athyglisvert að sjá svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni frá því í vetur, mál nr. 295, um útflutning sorps. Þar kom fram að við Íslendingar höfum undanfarin ár verið að flytja yfir 120.000 tonn úr landi. Nú kom ekki fram í svari hæstv. ráðherra hvaða úrgangur þetta er en ég geri ráð fyrir, svona miðað við magnið, að þetta sé kannski mest brotajárn og eitthvað slíkt, af því að þetta er það mikið. Í langflestum tilvikum voru móttökulöndin Evrópulönd og lítill hluti þessa magns, mjög lítill hluti, var spilliefni.

Herra forseti. Þetta leiðir hugann að því hvaða ábyrgð við berum á okkar sorpi vegna þess að í svari ráðherra kemur fram að ráðagerðir séu um að efla eftirlit með leið sorpsins, hvar það endar. Við munum eftir fréttum í vetur og undanfarið um hvar sorpið úr Evrópu endar oft á tíðum. Hvar endar það? Sumt af því endar jafnvel í þróunarlöndum í Afríku og Asíu. Auðvitað getum við ekki verið þekkt fyrir það, ef það kæmist upp að slíkt ætti við um sorp sem við sendum frá okkur til Evrópu, að það endi í raun og veru einhvers staðar annars staðar. Það yrði mikið áfall. Eins og með þessi skip t.d., þau enda einhvers staðar í ruslakistu í Asíu. Við getum ekki haldið áfram á þessari leið, herra forseti. Það er bara þannig. Við getum ekki urðað sorpið og við getum ekki heldur flutt það út. Þá er eina leiðin að endurvinna betur, flokka og endurnýta og brenna það sem eftir stendur. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom hér að, að það er alltaf eitthvað sem þarf að urða. Brennslur í dag, skástu brennslurnar, skila kannski 10% af því magni sem er brennt, það kemur samt sem áður sem úrgangur frá stöðvunum. Endurnýting á því magni hefur aukist verulega síðustu ár, bæði sem undirlag undir malbik o.s.frv. þannig að þessi prósenta fer alltaf minnkandi eftir því sem tækninni fleygir fram. En trúlega þurfum við alltaf að urða eitthvað og auðvitað þurfum við að gera það með sómasamlegum hætti á þeim stöðum þar sem það veldur sem minnstu tjóni. Í Noregi er þessari ösku, svokölluð flugaska sem er afgangur úr þessum stöðvum, komið fyrir djúpt í gömlum námum. Við þurfum að finna lausnir á þessu.

Annað sem ég ætlaði að koma inn á var urðun á dýrahræjum. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. ráðherra um það málefni í vetur, mál nr. 295. Í því svari kemur fram að árlega er verið að urða hér dýrahræ upp á u.þ.b. 2.000 tonn á ári. Nútímaþjóðfélög brenna þennan úrgang eða, ef það er engin sýkingarhætta, endurnýta hann. Við erum sem sagt enn þá að urða þetta. Skemmst er að minnast fréttar í vetur þegar sauðfé sýktist norður í landi og við höfðum ekki afl til að brenna þau hræ og þau voru urðuð fyrir norðan. Sérfræðingar segja að svona sýkingar í dýrum og dýrahræjum geti lifað um aldir þannig að við erum bara að búa til vandamál fyrir framtíðarkynslóðir. Við verðum að leysa þetta mál

Ég ætlaði einnig að upplýsa ykkur um hversu mikill úrgangur kemur frá hverjum manni. Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2019 kom fram að við skiljum eftir okkur 712 kíló á hvern íbúa, 712 kíló af heimilisúrgangi á ári. Það er mjög hátt miðað við meðaltal innan Evrópusambandsins. Við verðum auðvitað að standa okkur betur þarna, minnka þetta hlutfall, endurnýta meira. Hluti af þessum heimilisúrgangi er auðvitað bara jarðvegur í raun og veru, sem má búa til moltu úr, og við þurfum líka að standa okkur betur þar og auka það. Það er því næg vinna fram undan. Einn þáttur í því og stór þáttur í því er að ganga alla leið í þessu máli.

Ég ætla að nýta restina af mínum tíma í að svara örlítið hugleiðingum hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Hún spurði: Hver á að fjármagna þetta, þetta er málefni sveitarfélaganna? Tillagan gengur út á það að ríkið leiði þessa vinnu áfram, klári hagkvæmnisathugun, þ.e. á staðsetningu, stærð, flutningum og ýmiss konar vandamálum. Ríkið verður að leiða þetta. Ég held að það sé borin von að sveitarfélögin taki verkefnið upp á sína arma vegna þess að þetta er fjölþætt vandamál, sveitarfélögin eru mörg og dreifð, það eru flutningsleiðir o.fl. Ég held að ríkið eigi að leiða þetta, leiða saman sveitarfélögin og eftir atvikum einkaaðila. Hvort bygging á slíkri stöð yrði með aðkomu ríkisins er hugmynd sem vert er að skoða, hvort ríkið myndi hugsanlega byggja hana. Þetta þarf að skoða. Síðan yrði að athuga í leiðinni hvort sveitarfélögin væru tilbúin að greiða fyrir brennsluna. En svo eru aðrir tekjumöguleikar auðvitað að selja orkuna, bæði rafmagn og hita, sem er kannski ekki auðvelt hér á höfuðborgarsvæðinu. En þetta er sú vinna sem við erum einmitt, með þessari tillögu, að þrýsta á að fari fram og ég tel að ríkið eigi að leiða þessa vinnu lengra en nú er. Sveitarfélögin eða einkaaðilar geta gripið boltann síðar en við þurfum að halda áfram og leiða þetta lengra. Það er ekki í boði að stoppa núna. Betur komið hjá ríkinu, segir hv. þingmaður. Já, hugsanlega er því betur komið hjá ríkinu alfarið að ganga frá sorpinu, urða eða brenna vegna þess að urðunarstaðir fyllast. Það er rétt. Ég er sammála því. Kannski er því betur komið hjá ríkinu.

Varðandi endurvinnslu á plasti er það auðvitað mjög erfitt. Þó að endurvinnsla á plasti sé í Hveragerði þá eru tegundir plasts svo margvíslegar að öll endurvinnslu á því miðast við einfalda endurvinnslu, þ.e. að það sé sama efni í miklu magni. Það er mjög erfitt að endurvinna mestmegnis allt plast, það er mjög langsótt að halda það. En plast, herra forseti, er í raun og veru orka. Plast er orka og við eigum að nýta hana. Ég legg til að þetta mál verði sent til umhverfis- og samgöngunefndar og vona að það fái góða umfjöllun þar.