151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ímyndið ykkur ef kaffibollinn ykkar hefði kostað 50.000 kr. í morgun, súrdeigsbrauðið um 100.000 kr. eða nýi bíllinn ykkar um hálfan milljarð króna. Þetta er ekki mjög fjarlægt því að það væri raunin ef við hefðum ekki tekið tvö núll af krónunni.

Nú eru 100 ár liðin síðan ákveðið var að skrá gengi íslensku krónunnar sérstaklega. Fram til ársins 1920 var íslenska krónan á pari við dönsku krónuna en núna er gengi dönsku krónunnar um 21 íslensk króna. Ef við tökum tillit til myntbreytingarinnar 1981 er gengi dönsku krónunnar 2.100 gamlar íslenskar krónur. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart hinni dönsku er því aðeins 0,05% af því sem það var árið 1920, sem jafngildir rýrnun upp á 99,95% á þessu 100 ára tímabili. Vandfundið í veröldinni er það fyrirbæri sem hefur rýrnað jafn mikið. Sumir halda að gengisfellingar, en með þeim rýrnar virði krónunnar, séu gott hagstjórnartæki en þetta sama fólk gleymir að gengisfellingar gerast alltaf á kostnað almennings. Með gengisfellingu eru verðmæti færð frá almenningi þar sem krónur venjulegs fólks verða minna virði, innfluttar vörur hækka í verði og verðmætin eru færð til útflutningsgreina, svo sem útgerðarinnar. Með lækkun krónunnar hækkar verðbólgan. Á síðasta ári var krónan í hópi þeirra gjaldmiðla sem veiktust hvað mest. Við erum þar í hópi með Kirgistan, Mósambík og Georgíu.

Herra forseti. Ég leyfi mér því að spyrja: Er ekki fullreynt með íslensku krónuna? Er 100 ára sorgarsaga ekki nóg? (Forseti hringir.) Eigum við ekki að leyfa íslensku krónunni að sofna sínum þyrnirósarsvefni?