151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[16:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir að það er bara jákvætt að jafnréttismálin hjá okkur Íslendingum séu útflutningsvara, orðstír er góður og Ísland mælist mjög hátt í könnunum á jafnréttismálum og það er jákvætt. En ég held að það hljóti að hafa verið ákveðinn meðbyr með þessum lögum. Þetta hefur kannski tekið svolítið langan tíma en markmiðið er að nást. Það vantar ekki nema u.þ.b. 13% upp á að við náum því hlutfalli sem lögin kveða á um. Maður spyr: Verðum við ekki búin að ná þessu markmiði eftir kannski eitt ár, eitt og hálft, tvö ár? Þá er tilganginum náð. En að skella inn svona sektarákvæði núna (Forseti hringir.) — getur það ekki leitt til fordóma gagnvart konum sem taka sæti í stjórnum (Forseti hringir.) þegar þetta er gert með einhvers konar valdboði?