151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[16:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nei, ég hef ekki lagst í neina sérstaka lagaskoðun á því hvort þörf sé á sektarákvæðum eða viðurlögum á fleiri stöðum, ég skal alveg viðurkenna það. Og almennt er ég ekki hlynnt miklum álögum á atvinnulífið; þær þurfa þá að vera mjög vel rökstuddar. Í tilfelli samfélagsins og kynjajafnréttis þá held ég að það skipti miklu máli að við nýtum krafta beggja kynja. Því miður höfum við ekki náð þeim árangri sem við ættum að hafa náð þrátt fyrir það hversu framarlega við stöndum hvað kynjajafnrétti varðar. Ég hef kannski gengið aðeins of langt eða bara mismælt mig þegar ég talaði um að norðurslóðamál og jafnréttismál væru helsta útflutningsvara okkar. Ég er að tala um utanríkismál, áherslur í utanríkismálum. Ég held að atvinnuvegirnir okkar séu okkar stóra útflutningsvara svo að ég ítreki það. Engu að síður eru á norðurslóðum gríðarlega mikil tækifæri til aukningar í útflutningi á þekkingu, hvernig það er að búa á norðlægum slóðum. Reyndar spilar jafnrétti líka stórt hlutverk í því.