151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[16:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég óttaðist að ég myndi falla á prófinu þegar 7. desember var nefndur, að ég ætti einhvern veginn að muna hvað gerðist akkúrat þá. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja það upp að þá hafi þetta mál verið í umræðu og hv. þm. Brynjar Níelsson hafi flutt ræðu. Það verður að segjast eins og er að mér finnst hv. þm. Brynjar Níelsson almennt nokkuð góður og skemmtilegur ræðumaður og það kann engan að undra að mjög oft erum við Brynjar Níelsson sammála um hlutina enda erum við í sama flokki. En það er þó ekki alltaf svo og mér heyrist að hv. þm. Ólafur Ísleifsson og Brynjar Níelsson séu meira sammála þegar að þessu máli kemur.

Hv. þingmaður kom inn á pólitísk markmið. Ég er í pólitík, já, og mér finnst það gríðarlega mikilvægt markmið að við náum fram fullu jafnrétti vegna þess að ég aðhyllist frelsi einstaklingsins og frelsi einstaklingsins er aldrei raunverulegt nema við búum við jafnrétti.

Hvað varðar síðustu spurninguna þá vísa ég því bara til hv. atvinnuveganefndar að skoða þann þátt málsins.