151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er vont mál og enn ein birtingarmynd þess, sem við sjáum orðið reglulega, að menn beita þvingunarvaldi ríkisvaldsins, refsingum, til að hafa afskipti af því hvernig við högum lífi okkar. Nýlega kom fram frumvarp um hvernig við megum tjá okkur um liðna atburði, um voðaverk í fortíðinni. Hér er frumvarp um það hvernig við sjálf ákveðum hverjir stjórna fyrirtækjunum okkar. Þetta er hugsun sem er farin að grassera í samfélaginu, þ.e. stjórnvöld, ríkisvaldið, ætla að ná einhverjum pólitískum markmiðum, eða einhver hluti, meiri hluti á hverjum tíma, eins og því að eitthvert jafnvægi sé í kynjum í stjórnum fyrirtækja og beita til þess refsingum. Þetta er í eðli sínu afleit aðferð til að jafna vægi kynjanna. Við getum ekki leyft okkur að beita þvingunarúrræðum ríkisvaldsins til þess að ná einhverju slíku jafnvægi. Það versta við þetta er að flestum finnst það bara allt í lagi, að tilgangurinn helgi meðalið. Þú mátt gera hvað sem er. Hvað er næst? Ætlar ríkisvaldið að velja fyrir okkur maka til að tryggja að allir gangi út? Þið hlæið að þessu núna, það er ekki víst að þið hlæið eftir 20 ár.

Allt þetta er orðið aðalmálið á sama tíma og atvinnulífið er nánast í rúst. Það er í rúst og við erum að reyna að reisa það við og þá er það það fyrsta sem mönnum dettur í hug að koma með frumvarp til að geta sektað fyrirtæki. Þetta er ekki bara broslegt, þetta er hlægilegt. Það er ekki rétt að setja íþyngjandi kvaðir á atvinnulífið akkúrat núna. Menn hafa rökstutt þetta, meira að segja fólk í mínum flokki, sem ég hélt að væri upptekið af eignarréttinum, en það er allur gangur á því, með því að um jafnréttismál sé að ræða. Það að jafn margir af hvoru kyni, ef það má segja það lengur, séu á hverjum stað er í eðli sínu ekki jafnréttismál. Hugtakið jafnrétti snýr ekki að því. Við getum talið æskilegt að hlutfallið sé sem jafnast af hvoru kyni í flestum störfum. Við getum talið það æskilegt og við getum haft þá skoðun að það sé mikilvægt. Ég hef t.d. þá skoðun að það sé mjög mikilvægt að kennarar barnanna okkar séu jafn margir af hvoru kyni, en ég ætla ekki að fara að beita refsingum og þvingunum til að tryggja það. Ég ætla að beita öðrum aðferðum.

Þetta er kjarni málsins, menn eru að rugla saman æskilegu jafnvægi kynjanna einhvers staðar og hugtakinu jafnrétti. Í raun og veru er sú aðgerð sem þetta frumvarp boðar aðför að mikilvægum mannréttindum sem felast í eignarrétti. Það er þau mannréttindi sem minn flokkur hefur staðið vörð um og er alltaf sótt að með ýmsum hætti og alltaf svo auðvelt að réttlæta þá aðför. Menn vísa bara í samfélagslega hagsmuni eða eitthvað slíkt. En þegar menn ætla að takmarka eignarrétt, sem er stjórnarskrárvarinn, þá þurfa ríkir almannahagsmunir að vera til staðar. Það eru ekki ríkir almannahagsmunir að alls konar fólk sé í stjórn hvers fyrirtækis. Við getum kallað það æskilegt, en það eru sannarlega ekki almannahagsmunir.

Við höfum það fyrir reglu hér í þingsal að þegar við ætlum að reyna að koma málum í gegn þá vísum við alltaf í það hvað aðrar þjóðir eru að gera, ég tala nú ekki um nágrannaþjóðirnar. Við réttlætum líka alla vitleysuna sem við samþykkjum með því að einhver annar hafi gert eitthvað slíkt. Það hefur engri annarri þjóð dottið þetta í hug, engri, ekki í Evrópu, engum lýðræðisríkjum, engum réttarríkjum, bara engri þjóð. Hvers vegna? Vegna þess að þarna er eignarrétturinn undir, þetta er aðför að honum.

Ég velti oft fyrir mér af hverju færri konur eru í stjórnum ákveðinna fyrirtækja. Af hverju eru færri karlar í hinum og þessum störfum? Það er einhver skýring á því. Það er ekki af því að við séum að reyna að koma í veg fyrir það. En er það ekki hluti af frelsinu? Er það ekki bara fegurðin við þetta? Við erum bara ólík og jafnvel kynin. Ég þykist alveg vita af hverju fleiri karlar en konur eru í stjórn þeirra félaga sem frumvarpið snýr að. Það er vegna þess að það eru karlar sem hafa tekið áhættu með þessi félög og þeir vilja sjálfir fá að stjórna þeim. Þetta er ekki flóknara. Nei, þá kemur löggjafinn og segir: Þetta er ómögulegt. Það er fráleit aðferð. Það er ekki bara þetta sem er fráleitt. Það er bara fráleitt að í lögunum í dag sé þessi skylda fyrir hendi og því þarf að breyta. Við getum ekki gengið svona fram og réttlætt allt með því að hrópa þetta hugtak jafnrétti. Þetta hefur ekkert með jafnrétti að gera. Þetta hefur bara með aðför að eignarréttinum að gera en hann eigum við að reyna að verja.

Hugarfarið í samfélaginu er þannig í dag að það má allt. Allt sem okkur er ekki þóknanlegt, hvort sem það er í orðræðu eða öðru, er talið óæskilegt og við ætlum að beita refsingu. Maður má ekki einu sinni þvæla lengur án þess að lenda í refsivendinum. Það er nefnilega heilmikil fegurð í að bulla og þvæla. Það er fegurðin í frelsinu. Nei, það má ekki heldur. Í hvers konar samfélag stefnum við? Er enginn að hugsa um það? Nei, það er af því að meiri hlutinn á hverjum tíma er alltaf að þvinga minni hlutann. Hið frjálsa samfélag er á bullandi flótta. Það gerist ekki á einni nóttu en svo vöknum við einn daginn og áttum okkur á því að hið frjálsa samfélag er nánast horfið. Það getur vel verið að ég hljómi miðflokkslegur núna, en mér finnst það ágætt. Það er nefnilega heilmikið til í málflutningi Miðflokksins í þessu máli. Ef satt skal segja þá vil ég áfram vera miðflokkslegur í mörgu öðru sem Miðflokkurinn hefur komið fram með. Ég er ekki að tilkynna framboð fyrir Miðflokkinn en hann á skilið hrós fyrir það sem vel er gert. Takk fyrir.