151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Næst ætla ég að spyrja hv. þingmann og sérfræðing út í atriði sem hann kom inn á í ræðu sinni, áhyggjur hans af því að þetta haldi áfram að þróast til verri vegar þegar menn hafa leyft sér að brjóta prinsippin. Hér er sannarlega verið að brjóta prinsipp, prinsipp um eignarrétt og raunar líka prinsipp um lýðræði. Það er kosið lýðræðislega í stjórnir fyrirtækja nema ríkið ákveði að skipta sér af og segja til um hverjir megi vera þar og hverjir ekki. Og auðvitað flækist málið áfram eins og hv. þingmaður nefndi. Nú vitum við ekki hversu mörg kyn eru til staðar samkvæmt nýjustu skilgreiningum ríkisstjórnarinnar en þegar þarf að fara að taka fleiri kyn með í reikninginn, jafnvel líta til þess að það þurfi að vera ungir og eldri stjórnarmenn o.s.frv., hvernig er þá hægt að framkvæma þetta? Er hugsanlegt að við þurfum einfaldlega að koma á hæfisnefnd stjórnarmanna sem ríkið reki og þeir sem eiga fyrirtæki geti leitað til þessarar nefndar sem fari yfir alla sem sækja um að verða stjórnarmenn (Forseti hringir.) og meti hver sé hæfur að mati ríkisvaldsins til að setjast í stjórn fyrirtækisins?