151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kæmi mér ekki á óvart að það gerðist næst. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, þetta er nefnilega aðför að lýðræðinu. Þetta er lýðræðislegt fyrirbæri við fyrirtækin, stjórnir þess. Það er kosið í þær. En við sjáum þetta líka gerast varðandi kosningar. Það komu hér þingmenn vegna frumvarps um ný kosningalög sem vildu gera þá kröfu að menn gætu ekki boðið fram nema það væri jafn mikið af hvoru kyni. Þetta er á fleygiferð út um allt í samfélaginu. Þetta er aðför að lýðræðinu, þetta er aðför að frjálsa samfélaginu og þetta hefur ekkert með jafnréttismál að gera. Við erum greinilega á leiðinni að kæfa hið frjálsa vestræna lýðræðissamfélag. Við gerum það bara smátt og smátt. Við finnum ekki mikið fyrir því í stóra samhenginu en svo vöknum við einn daginn upp við vondan draum, hv. þingmaður.