151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á því að gera athugasemd við að þetta mál skuli hafa dúkkað upp á dagskrá hér í dag óforvarendis, ef svo má segja. Þetta mál var fyrr í umræðunni og sent aftur til nefndar á meðan á 2. umr. stóð, eftir að í ljós kom að það væri verulega gallað. Það hefði orðið misbrestur t.d. á því að leita álits hjá þeim sem leita þyrfti álits hjá, bregðast við athugasemdum sem höfðu komið þar sem bent var á galla frumvarpsins. Það var skilningur okkar þingmanna á sínum tíma að ástæðan fyrir því að frumvarpið færi aftur til nefndar áður en umræðunni lyki væri sú að það þyrfti að gera á því lagfæringar. Þær myndu birtast okkur þannig að við gætum rætt þær breytingar sem lagðar yrðu til og líka í framhaldi af því að fleiri hefðu fengið að segja álit sitt á málinu. En svo birtist það hér allt í einu án þess að við höfum hugmynd um hvað hafi komið út úr, að mati meiri hlutans eða flutningsmanna málsins, þeim eina fundi sem haldinn hefur verið um þetta mál síðan. Hann var haldinn, að mér skilst, strax daginn eftir að umræðan fór fram síðast. Það er því synd að hæstv. forseti skuli sífellt færa hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur niður listann því það væri mikið gagn að því fyrir umræðuna ef hv. nefndarformaður myndi rekja það hver áhrifin af þessum eina fundi verða á þetta frumvarp því að öllum mátti vera ljóst að það þurfti talsverðar lagfæringar og breytingar. Vonandi fáum við einhverjar skýringar á því áður en langt um líður.

En þá að frumvarpinu sjálfu. Ég ætla bara að byrja á því að ræða aðeins raunveruleg áhrif þess, raunverulegar afleiðingar þess. Auðvitað er þetta ekki allt nýtilkomið. Ég tek undir með hv. þm. Brynjari Níelssyni að það lítur ekki vel út fyrir Alþingi að menn skuli enn ekki hafa gert meiri lagfæringar á ýmsum þeim furðumálum sem samþykkt voru í tíð hreinu vinstri stjórnarinnar á árunum 2009–2013. En þó, þegar þessi regla kom fyrst, virtust menn gera sér grein fyrir því, jafnvel í hreinu vinstri stjórninni, að þetta væri kannski ekki auðvelt í framkvæmd og því var ákveðið að ekki yrðu settar á sérstakar refsingar. Reyndar var getið um möguleika á að beita refsingum en ekki talað um, eins og í þessu tilviki, að dagsektir gætu farið upp í 100.000 kr. á dag til að knýja á um þetta pólitíska markmið sem, eins og ég mun koma inn á hér á eftir, gengur bæði gegn lýðræði og eignarrétti og mörgum öðrum grundvallarreglum vestrænna lýðræðisríkja.

En þá að raunverulegu áhrifunum. Ímyndum okkur nú að fimm ungar konur sem væru saman í háskólanámi fengju, t.d. í verkefnavinnu í háskólanum, viðskiptahugmynd og ákvæðu saman þessar fimm að ráðast í nýsköpun, stofna fyrirtæki um hugmynd sína. Til að gera það kleift þá leggja þær peningana sína undir og meira en laust fé, þurfa líklega að taka lán hver um sig út á húsnæðið, svoleiðis að fjölskyldur þessara fimm kvenna eru þarna undir. En það vill svo vel til að hugmyndin gengur upp og áhættan fer að borga sig. Reksturinn gengur vel og starfsmönnum fjölgar. En þegar fimmtugasti starfsmaðurinn er ráðinn þá mætir ríkisvaldið og útskýrir að nú megi þessar konur, sem í sameiningu byggðu upp þetta fyrirtæki, ekki lengur sitja allar í stjórn þess, a.m.k. tvær þurfa að víkja þótt þær eigi allar jafnan hlut, 20% hver. Hvernig á að standa að þessu? Ætlar ríkið að velja á milli þeirra, ákveða hvaða konur eigi að fara úr stjórninni eða á að eftirláta eigendum fyrirtækisins að velja hverjar verði reknar úr stjórn? Eiga þær sem missa stjórnarsæti sitt, þrátt fyrir að eiga enn eignarhlut sinn sem þær mega ekki fara með lengur að því marki að þær mega ekki ráða því hvernig farið er með hann, að finna sér lepp til að setjast í stjórnina, einhvern karlkyns, sem uppfyllir kröfur ríkisins? Hver verða áhrifin á stjórn þessa fyrirtækis? Er það til góðs fyrir fyrirtækið að í stað þess að þær fimm konur sem fengu þessa góðu hugmynd, unnu saman, lögðu allt undir, stóðu sig vel og náðu árangri, fái áfram að reka fyrirtækið eða stjórna, komi einhverjir sem væru valdir út á kyn sitt? Og hvað ef þetta fyrirtæki sérhæfði sig í einhverju sem höfðar kannski meira til kvenna en karla? Væri þá aðkoma þessara tveggja karla til bóta fyrir reksturinn? Auðvitað er almennt séð æskilegt að stjórnarmenn komi úr ólíkum áttum, hafi ólíka sýn, séu af ólíku kyni, ólíkum aldri og svo mætti lengi telja. En hvar endar það ef ríkið ætlar að fara að skipuleggja þetta fyrir fyrirtækin?

Við sjáum að þetta mál í eðli sínu er afleiðing af gangverki kerfisins. Tannhjólin snúast alltaf áfram jafnt og þétt í eina átt. Á sínum tíma var þetta mál afgreitt hér með öllum fyrirvörum um að það yrði sýnd hófsemi og tekið tillit til aðstæðna og þar fram eftir götunum. Og hvað gerist svo? Það eru einhverjir hv. þingmenn hér sem hafa áhyggjur af því að ríkið sé ekki að ráðskast nógu mikið með það hvernig menn fara með eignir sínar þannig að það þurfi að bæta við refsingum ofan á þær refsiheimildir sem voru til staðar. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað kemur þá næst? En svona starfar kerfið, jafnt og þétt halda tannhjólin áfram að snúast í sömu átt á meðan við stjórnmálamenn, því miður allt of oft, grípum ekki inn í þótt ástæða sé til, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson gat um varðandi hin ýmsu mál sem lögfest voru á árunum 2009–2013, hent inn í kerfið og kerfið er áfram að spinna við þau og auka vald sitt.

Þetta mál er líka dæmigert fyrir vanda nútímastjórnmála að öðru leyti. Það snýst allt um yfirbragð, yfirlýst markmið. Ef yfirlýst markmið er jafnrétti, hver skyldi vilja vera á móti slíku máli? Ég nota oft dæmi um það að ríkisstjórnin legði fram frumvarp sem héti jafnrétti og velferð fyrir alla. Hver ætlar að vera á móti frumvarpi sem heitir jafnrétti og velferð fyrir alla jafnvel þótt raunverulegar afleiðingar þess yrðu þær að skerða jafnrétti og draga úr velferð? Það er ekki svo langsótt að halda því fram að raunveruleg áhrif geti verið öfug við hin yfirlýstu markmið þegar ímyndarstjórnmálin eru allsráðandi því þetta einkenndi stjórnmál austan tjalds fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Öll mál voru yfirlýst til þess ætluð að gera líf allra betra en það hvernig þau voru framkvæmd og þeim fylgt eftir hafði þveröfug áhrif. Jafnvel stjórnarskrár þessara ríkja, eins og stjórnarskrár Sovétríkjanna sem eru nú fræg, eru mjög fallegar á að líta, falleg orð og setningar en svo gerðu menn eitthvað allt annað, þvert á lýsinguna sem birtist í stjórnarskránni. Það væri mikil synd ef við færum í auknum mæli að umgangast stjórnarskrá Íslands með slíkum hætti, að fara að líta á það sem þar stendur sem einhverjar almennar yfirborðslýsingar fremur en grundvallarreglur sem við ætlum að fylgja.

Með þessu máli er vegið að slíkum grundvallarreglum. Og í því skyni að gera það á einhvern hátt auðveldara leyfa menn sér jafnvel að endurskilgreina orð og frasa. Hér töluðu a.m.k. tveir þingmenn, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, um að þetta mál snerist um að verja frelsi vegna þess að frelsi væri ekki til staðar nema jafnrétti væri náð með aðgerðum eins og þessum. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir talaði reyndar um að svona aðgerðir væru mikil útflutningsvara okkar Íslendinga, ein helsta útflutningsvaran.

Þá langar mig að vitna í ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar þar sem hann lýsir þessu viðhorfi ágætlega. Við vitum hvernig þetta gerist, hvaða hópar hittast í alþjóðasamstarfi og hvernig þeir ræða saman og menn geta farið að láta blekkjast af því nærumhverfi, þeirri búblu sem þeir lenda þannig inn í. En hv. þm. Brynjar Níelsson sagði í ræðu sinni fyrr í þessari umræðu og réttilega, með leyfi forseta:

„Við erum í eilífu monti, af því að við erum svo dugleg að beita refsingum og viðurlögum til að ná pólitískum markmiðum. Við erum gjörsamlega komin út í móa í þessu sem og svo mörgu öðru af því að við höldum að við séum svo æðisleg. Við erum svo flott, við erum svo jafnréttissinnuð, við erum algjört æði.“

Við erum í raun bara hallærisleg, bætir svo hv. þm. Brynjar Níelsson við. Er það ekki einmitt málið? Þegar menn gleyma sér alveg í yfirbragðinu, frösunum, og hitta svo aðra sem telja að slíkt sé hin besta pólitík þá getur eitthvað hallærislegt komið út úr því en ekki bara það, heldur líka eitthvað mjög skaðlegt því að þegar menn jafnt og þétt sneiða af frelsinu þá hefur það skaðleg áhrif á endanum.

Varðandi þessa tilraun til að endurskilgreina orð, orð eins og frelsi, þá sagði hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir til að mynda: Frelsi einstaklingsins er aldrei raunverulegt nema þeir búi við jafnrétti. Þá fylgdi sögunni að það þyrfti afskipti ríkisins, skipulagningu og inngrip ríkisins, til að tryggja frelsið. Þá varð mér hugsað til söngkonu sem ég hef nú aldrei vitnað í áður hér, herra forseti, og geri kannski síður ráð fyrir að vitna aftur í enda ekkert sérstaklega sammála henni pólitískt séð, a.m.k. ekki í seinni tíð. En söngkonan Björk Guðmundsdóttir söng um þessa tilhneigingu í lagi sínu „Hunter“, ég geri ráð fyrir að þýða megi það sem veiðimaður, veiðikona eða veiðipersóna eða veiðieinstaklingur, en „Hunter“ hét lagið á frummálinu. Þar segir söngkonan, með leyfi forseta, í eigin þýðingu því ég veit að hæstv. forseti vill við tölum íslensku: Ég hélt að ég gæti skipulagt frelsið. En skandinavískt hjá mér. Söngkonan útskýrði svo þessi orð í viðtali og sagði að hún hefði fyrst og fremst verið að vísa til Svía og hversu heimskulegt það væri að ímynda sér, eins og sumir gerðu í Svíþjóð og jafnvel annars staðar á Norðurlöndum, að það væri hægt að skipuleggja frelsið. En þetta er nú það sem nokkrir hv. þingmenn hafa kallað eftir hér, að það þurfi að skipuleggja frelsið því að það sé svo hættulegt að frelsið fái að vera frjálst. En eins og ég gat um áðan hefur þetta afleiðingar. Það hefur afleiðingar að skerða frelsið og þær afleiðingar hafa tilhneigingu til að vinda upp á sig.

En til hvers er þetta allt gert? Markmiðið, eins og mönnum verður tíðrætt um hér, er að ná jafnrétti, en hvers konar jafnrétti? Jafnrétti í því formi að það séu alltaf jöfn hlutföll kynja, ekki endilega jöfn hlutföll hvað annað varðar, a.m.k. ekki að sinni, í stjórnum fyrirtækja. Þetta er það sem hv. þm. Bergþór Ólason kallaði hér fyrr í dag yfirstéttarjafnrétti. Þeir sem leggja svona mikla áherslu á þessar breytingar, kannski til að einhverjar sjö Viðreisnarkonur fái fleiri stjórnarsæti, líta um leið fram hjá stöðu jafnréttismála í landinu almennt, stöðu fiskverkakvenna eða annarra verkakvenna eða stöðu stóru kvennastéttanna, heilbrigðisstarfsfólks, hjúkrunarfræðinga, kennara. Þeir eru að stunda undarlega pólitík og beita sér fyrir yfirstéttarjafnrétti. Í hvaða búblu búa menn þá? Ég kann ekki íslenska þýðingu á þessu orði en ég vona að hæstv. forseti viti hvað ég á við. Hvert er nærumhverfi þeirra sem leggja alla áherslu á yfirstéttarjafnrétti? Það er einmitt það umhverfi þar sem slíkt er í hávegum haft og menn telja sig jafnvel geta haft einhvern ávinning af því sjálfir, þegar það á að vera hlutverk okkar stjórnmálamanna að líta til hagsmuna landsmanna allra og gera það með almennum reglum sem skerða ekki frelsi heldur leyfa frelsinu að njóta sín, reglum sem snúast um að skapa jöfn tækifæri, ekki að handstýra ákveðinni niðurstöðu sem er það sem þetta mál gerir. Það snýst ekki um að skapa jöfn tækifæri, þvert á móti. Eða hvað ætli konurnar tvær úr dæminu mínu hér í byrjun myndu segja um það þegar þeim yrði sagt að þær þyrftu að fara úr stjórn eigin fyrirtækis af því að það væri tækifæri fyrir þær að fá ekki að fara með eigur sínar?

Þegar við lítum á raunveruleg áhrif og raunveruleg dæmi þá er þetta mál ekki til þess fallið að auka frelsi eða gera fyrirtæki betri heldur til þess fallið að ná markmiðum afmarkaðs hóps sem leggur meiri áherslu á yfirstéttarjafnrétti en almennt, raunverulegt jafnrétti. Og eins og hv. þm. Bergþór Ólason nefndi hér fyrr, þá hefur þetta sama fólk ekki áhyggjur af því að hjúkrunarfræðingar eigi jafnvel bara einn kost á vinnu. Það hefur ekki áhuga á því að bæta lífskjör þeirra með því að bjóða upp á fleiri valkosti, fleiri vinnustaði og meiri samkeppni. Sama má segja um kennarana. Nei, það er vegna þess að þetta snýst ekkert um jafnrétti. Þetta snýst um sýndarmennsku fyrir mjög afmarkaðan hóp, þar sem menn fá svo væntanlega klapp á bakið í einhverri norrænni nefnd og líta svo á í framhaldinu að það sé mat heimsins að ein helsta útflutningsvara Íslands sé jafnrétti.

Það er mjög aðkallandi, herra forseti, að við förum í auknum mæli að líta til grunngildanna sem hafa reynst okkur best og búið til raunverulegt jafnrétti í gegnum tíðina en hverfum af braut ofstýringar ríkisins á daglegu lífi fólks og jafnvel afskiptasemi þess af því hvernig það fer með eigur sínar. En ég er nú rétt að hefja þessa yfirferð, herra forseti, þetta voru inngangsorð. Ég bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.