151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veitti því einmitt athygli fyrr í umræðunni að hv. þingmaður kom inn á þetta og útskýrði að mínu mati mjög vel í andsvörum og í ræðu um málið. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að þetta er mikið áhyggjuefni. Mér finnst vera aukin tilhneiging til þess að lögum sé hleypt hér í gegn án þess að það liggi ljóst fyrir hvað í þeim felist, hverjar valdheimildirnar séu og hversu langt menn geti gengið og á hvaða forsendum þeir eigi að gera það. Þetta tel ég að hljóti að vera afleiðing af þeirri þróun sem ég rakti í ræðu minni. Þetta er allt farið að snúast um yfirbragðið, einhverja frasa og segjast ætla að gera þetta eða ná þessum árangri og þá fer jafnvel hitt að gleymast, raunveruleg áhrif lagasetningarinnar.

Þetta atriði er eitthvað sem tvímælalaust þarf að skoða miklu betur í þessu máli og þess vegna átti ég von á því, af því að þetta hefur legið fyrir a.m.k. frá því að hv. þingmaður benti á það í byrjun desember, að nefndin myndi vinna meira í þessu og leggja meira línurnar um þetta áður en umræðan héldi áfram. En enn bíðum við frétta af því hvað meiri hluti nefndarinnar sem fer með málið hyggst gera til að reyna að laga þetta mál, ef það er þá hægt að laga það. Ég teldi reyndar mjög æskilegt að málið kæmi til umfjöllunar einnig í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins þar sem hv. þingmaður gæti vonandi reynt að lækna það, eins og hann hefur gert svo vel með svo mörg mál meiri hlutans, eða helst gerst svæfingalæknir í þessu tilviki.