151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

herra forseti. Ég er ekki viss um að fólk vilji hafa mig sem svæfingalækni, a.m.k. ekki þegar það fer undir skurðarhnífinn. En ég ætla aðeins að halda áfram með þetta. Ég ætla ekkert að draga það í efa að það er góður hugur sem fylgir þessu frumvarpi. Ég ætla ekkert að draga það í efa að það er góður hugur hjá þeim sem vilja stuðla að jafnrétti kynjanna og jafnvel að koma með þvingaða lagasetningu sem gengur gegn öllum grunnhugmyndum mínum og að ég tel grunnhugmyndum stjórnarskrárinnar um eignarréttinn og frelsi manna til athafna, að haga sínum málum eins og þeir vilja. Ég skil hvað menn eru að reyna að gera en lögþvingun er kannski ekki það sem við eigum að gera. En ef menn vilja gera það, eiga þeir þá ekki að vera samkvæmir sjálfum sér, ekki bara um jafnræði kynjanna heldur líka jafnræði aldurshópa? Eigum við ekki að setja kvóta í stjórnir hlutafélaga þar sem er tryggt að eldri borgarar hafi ákveðinn hlut, þeir sem eru miðaldra, ég og Brynjar, hæstv. forseti, námsmenn o.s.frv.? Eigum við ekki líka að huga að jafnrétti fólks eftir búsetu þegar kemur að fyrirtækjum sem eru t.d. með starfsemi úti um allt land? Eigum við ekki að tryggja það með lagasetningu og knýja fyrirtæki til þess að skipa í stjórn eftir búsetu, ekki bara eftir kynjum?

Hvar ætlum við að enda, hv. þingmaður, ef við höldum svona áfram og ætlum að fylgja þessari röksemdafærslu, sem gengur að vísu gegn því sem ég tel, og ég vona að fleiri hér séu mér sammála, stjórnarskrárvörðum réttindum manna þegar kemur að því að ráðstafa eigum sínum og taka ákvarðanir á grundvelli þeirra með hagsmuni sína í húfi. Ef þeir telja að hagsmunum þeirra sé best borgið í að skipa fimm konur í stjórn þá gera þeir það. Ef þeir telja að það sé betra að (Forseti hringir.) skipa bara þá sem eru 70 ára og eldri, óháð kyni í stjórn, þá gera þeir það. Og hvað gerist? Jú, íslenskt samfélag (Forseti hringir.) mun græða á slíku fyrirkomulagi.