151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

íslenska krónan og verðbólga.

[10:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að ákveða sig hvort hann telji þetta vera verðbólguskot sem fari til baka eða telji æskilegt að það verði verðbólga. Það er náttúrlega augljóst að hann klínir, eins og fyrri daginn, verðbólgunni á launaþróunina, á aðila vinnumarkaðarins. Auðvitað má spyrja sig hvort kemur á undan, eggið eða hænan. Er ekki tími til kominn, líka fyrir aðila vinnumarkaðarins í samvinnu við stjórnvöld, að fara að ræða gjaldmiðilinn okkar, eins og ég gat um áðan, fílinn í herberginu? Getur verið að launaþróunin sé með þessum hætti hér heima af því að við erum með þennan gjaldmiðil? Getur það líka verið? Fjármálaráðherra svaraði mér engu í því að mínu mati, nema með því að benda á launaþróunina, af hverju við erum eitt ferðaþjónustulanda í kreppu með fall í þjóðartekjum, eins og allar aðrar þjóðir í Evrópu, með verðbólgu. Við vitum alveg hvaða áhrif verðbólgan hefur til lengri tíma fyrir heimilin og fyrirtækin. Reikningurinn á krónunni er alltaf sendur á íslensku heimilin, á fyrirtækin.

Þannig að ég spyr enn og aftur: Hver er framtíðarsýnin hjá hæstv. fjármálaráðherra hvað þetta varðar? (Forseti hringir.) Við fáum þetta allt til baka, við erum vön þessari rússíbanareið með krónuna og það er tími til kominn að við förum að gera eitthvað annað í þágu heimila og fyrirtækja.