151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:12]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málefnum stóriðju með þessari umræðu hér á þinginu. Staða hennar hefur talsvert verið til umræðu að undanförnu og þess vegna er gott tilefni til að fara yfir þau mál.

Í fyrsta lagi, varðandi ógnir við samkeppnisstöðu stóriðju á Íslandi þá var það, eins og við höfum rætt, niðurstaða óháðrar greiningar þýska fyrirtækisins Fraunhofer, sem ég óskaði eftir, að raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum, sem í þessu tilviki voru Noregur, Þýskaland og Québec í Kanada. Þar var augljóslega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur því að það eru þau lönd á Vesturlöndum þar sem stóriðja stendur einna best að vígi í alþjóðlegum samanburði. Þar höfum við verið og niðurstaðan er að við erum enn.

Fram kemur í skýrslunni að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi er vissulega breytilegur eftir atvinnugreinum og tegund orkusamninga. Þegar spurt er um ógnir hlýtur raforkukostnaður að koma við sögu því að hann hefur eðli máls samkvæmt mikil áhrif á samkeppnishæfni stórnotanda. Sum fyrirtæki, bæði hér á landi og erlendis, búa við breytilegt raforkuverð á meðan önnur hafa samið um verð sem er meira niðurnjörvað. Breytilegt verð getur ýmist aukið eða minnkað samkeppnishæfni viðkomandi fyrirtækis í samanburði við önnur um lengri eða skemmri tíma. Breytingarnar eru þannig ýmist bölvun eða blessun, allt eftir atvikum. Við þurfum að halda vöku okkar og stuðla áfram að eins samkeppnishæfu umhverfi og mögulegt er til að tryggja að við getum áfram nýtt þau tækifæri sem felast í endurnýjanlegum orkuauðlindum. Í skýrslu Fraunhofer er t.d. bent á að við þurfum mögulega að huga betur að flutningskostnaði raforku. Unnið hefur verið að greiningu á tillögum til úrbóta á þeim þætti að undanförnu, sem ég stefni á að leggja fram sem mál á Alþingi á allra næstu vikum.

Í öðru lagi, varðandi það hvort ég telji það vera til bóta í umhverfislegu tilliti að leggja stóriðjustarfsemi niður hér á landi, þá er svarið stutt og laggott: Nei, alls ekki. Ég tel að það væri alls ekki til bóta í umhverfislegu tilliti og tek undir þau orð sem hv. þingmaður vísaði til, orð forstjóra Landsvirkjunar frá því um áramótin. Að leggja niður grænorkudrifna stóriðju á Íslandi myndi að öðru óbreyttu auka hlutdeild kolaorku og annarra ósjálfbærra orkugjafa í framleiðslu á viðkomandi vörum þannig að það væri ekki framför. Það væri afturför í loftslagsmálum.

Í þriðja lagi, varðandi áhyggjur af takmörkunum á frekari orkuvinnslu sem birtast í þingmálum um rammaáætlun og hálendisþjóðgarð og tengd mál, þá hefur bæði rammaáætlun og útfærsla hálendisþjóðgarðs áhrif á framtíðarmöguleika í orkuvinnslu. Þess vegna segi ég að það er mjög mikilvægt að skoða þau mál vel frá öllum hliðum. Ég tel vissulega ekki að það stefni í eitthvert neyðarástand varðandi framboð á nýrri raforku, a.m.k. ekki að sinni, en það getur líka breyst hratt því að það eru möguleikar til staðar í nýtingarflokki rammaáætlunar auk þess sem nú hillir undir nýtt regluverk um meðferð vindorku sem getur breytt heilmiklu og ég bind miklar vonir við. En við þurfum að gæta okkar á því að binda ekki hendur okkar um of til framtíðar því að aukið framboð á raforku gegnir lykilhlutverki í nýrri atvinnusköpun á landsvísu og eins við að lækka raforkuverð og auka samkeppni á orkumarkaði. Við munum líka þurfa mikla orku ef við ætlum að gera alvöru úr því markmiði að vera fyrsta landið í heiminum sem útrýmir jarðefnaeldsneyti og skiptir bensíni og olíu alfarið út fyrir græna orku. Ég vil að við höfum það markmið. Þetta samhengi þarf því augljóslega að hafa í huga og skoða vel í þeirri umræðu sem fram undan er á Alþingi í vetur um rammaáætlun og hálendisþjóðgarð og tengd mál.

Í fjórða lagi, um stöðu viðræðna á milli álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar er það að segja að ráðuneytið eða stjórnvöld koma ekki að þeim viðræðum með beinum hætti, en samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum er virkt samtal og viðræður í gangi á milli aðila.

Í fimmta lagi, varðandi áform um fjárfestingar hjá Norðuráli, þá höfum við fylgst vel með því máli. Þar er um spennandi áform að ræða sem verið hafa til skoðunar í allmörg ár og komist á dagskrá nokkrum sinnum. Ég ætla ekki að tala fyrir munn fyrirtækisins um hvar þau áform standa, en auðvitað vona ég að aðstæður leyfi að þau verði að veruleika.

Ég tel í öllu falli að ekki sé hægt að segja að aðstæður á Íslandi hafi almennt verið fjandsamlegar fjárfestingum, því að við höfum á undanförnum árum séð stórar fjárfestingar hjá stórnotendum, t.d. í Straumsvík, í nýjum kísilverum og nýjum gagnaverum. Það má benda á að álverð hefur hækkað u.þ.b. 40% á tæpu ári, sem má ætla að geri slíkar fjárfestingar fýsilegri en ella. Við höfum á undanförnum árum verið að horfa á uppbyggingu hér sem ekki hefur sést annars staðar.

En ég vil að það komi alveg skýrt fram þegar við erum annars vegar að ræða um öll þau nýju tækifæri sem við stöndum frammi fyrir, og það sem mér finnst að ætti að vera markmið okkar, að verða fyrst allra landa til að verða óháð jarðefnaeldsneyti, þá má það aldrei fara þannig að þetta snúist um annaðhvort það sem við nú höfum eða það sem við getum gripið. Þetta snýst um að fjölga eggjum í körfunni. Þetta snýst um að auka verðmætasköpun, fjölga störfum og breikka í raun þessa atvinnugrein. Það er enginn að tala um, og allra síst ég, að einhver vilji sjá þau öflugu, sterku fyrirtæki sem við höfum hér, sem skaffa hundruð starfa og tugmilljarða af gjaldeyristekjum, fjara út og að hitt taki við. Ég vil bara bæta hinu við af því að þar höfum við tækifæri og þar höfum við ákveðið forskot.