151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þegar við ræðum stöðu raforkumála á Íslandi þá blasir við að fókusinn er á breytta tíma og orkuskipti. Það er stóra viðfangsefnið núna. Rafbílavæðing, rafvæðing í samgöngum almennt, á landi, á sjó og í lofti, er á fullri ferð og á meginlandi Evrópu mun þurfa vetni til að mæta orkuþörf þar í stað jarðefnaeldsneytis. Allir flokkar sammæltust um orkustefnu til ársins 2050 þar sem miðað er við að Ísland verði búið að losa sig við allt bensín og allar olíur það ár. Það er stór breyting því að í dag kaupum við slíkt eldsneyti fyrir um 50 milljarða á ári. Það jafngildir heildarframlögum ríkissjóðs til allra háskóla landsins, svo hlutirnir séu settir í samhengi.

Á opnum fundi Landsvirkjunar í gær um nýja möguleika til nýtingar orku í framtíðinni, ræddi Haraldur Hallgrímsson, viðskiptaþróunarstjóri fyrirtækisins, um orkuskipti með grænu vetni sem raunhæft og spennandi verkefni fyrir okkur, spennandi tækifæri. Tæknin til framleiðslu, dreifingar og notkunar á vetni er að verða samkeppnishæf. Framleiðsla á grænu vetni þarf hagkvæma, endurnýjanlega raforku í umtalsverðu magni og við eigum þá orku til. Það er augljóst að orkuskipti af völdum vetnisvæðingar geta skapað mikinn gjaldeyri og farið langleiðina með að gera landið okkar kolefnishlutlaust. En við erum ekki ein um að velta fyrir okkur vetninu. Við ættum samt að geta framleitt það á hagkvæmari hátt en flestir aðrir og þannig verið meðal fyrstu þjóða til að losa okkur við jarðefnaeldsneytið.

Svo er það hitt, að eftirspurnin eftir vetninu vex hratt. Talið er að hún muni verða komin í 20 milljón tonn árið 2050 í Norður-Evrópu einni. Víða á meginlandinu er ekki hægt að anna eftirspurn með innlendri framleiðslu og hér ætti að vera risatækifæri fyrir okkur að byggja upp nýja útflutningsgrein og hafa um leið jákvæð áhrif á umhverfið. Það eru virkilega spennandi tímar fram undan og það er mikilvægt að við fylgjumst með þeim tækifærum sem eru í framtíðinni vegna þess að nú er tími til að spila sókn en ekki vörn þegar kemur að þátttöku okkar í þessum málum til framtíðar.