151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu sérstöku umræðu sem fram hefur farið hér í dag. Sérstaklega vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttöku hennar og innlegg. Það er auðvitað ýmislegt sem hefur komið fram hér og ég verð að viðurkenna að mér þóttu ræður ýmissa þingmanna undarlegar. Ég nefni Smára McCarthy, þingmann Pírata, Andrés Inga Jónsson, þingmann utan flokka, og Kolbein Óttarsson Proppé, svo að einhverjir séu nefndir. En sem betur fer skín í gegn hér frá miklu fleiri þingmönnum vilji til að styðja við þá kjarnaatvinnustarfsemi sem stóriðjan á Íslandi er. Hún er gríðarlega mikilvæg, ekki bara fyrirtækjunum sjálfum eða orkusölufyrirtækjunum, Landsvirkjun sérstaklega, heldur samfélaginu öllu. Gjaldeyrissköpunin, öll þau fyrirtæki sem verða til og sinna þjónustu við þessi stóru fyrirtæki — það eru allt lykilatriði í því að samfélagið okkar geti virkað og verið burðugt.

Það er auðvitað þannig, og við vitum það öll sem erum hér inni, að á meðan verðmætasköpunin er ekki í forgrunni er ekkert svigrúm til að bæta í þegar kemur að velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og öðrum slíkum. Við verðum að hafa það í forgrunni að gæta vel að þeim mikilvægu eggjum sem við eigum um leið og við, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, reynum að fjölga eggjunum í körfunni, en ekki á kostnað þeirra sem fyrir eru.

Í því samhengi vil ég, og félagar mínir í Miðflokknum, enda þessa umræðu á að segja: (Forseti hringir.) Ég vona að stóriðjufyrirtækin á Íslandi eigi hér öfluga og sterka framtíð til langs tíma.