151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það eru nokkur atriði sem mig langaði bæði að ítreka og koma inn á. Stóriðja á Íslandi er mikilvægur grunnur sem hefur fært okkur mjög margt og þetta snýst um að byggja á þeim grunni. Við sóttum í raun stóriðju á sínum tíma og við byggðum flutningskerfi sem við hefðum ella ekki getað gert þá. Við bjuggum til mjög verðmætar gjaldeyristekjur sem minna var af á þeim tíma en er í dag. Ekki má gleyma öllum þeim umsvifum sem þessum fyrirtækjum fylgja, þ.e. allri annarri þjónustu, þeim fyrirtækjum sem þjónusta þessi fyrirtæki og störfunum sem þar verða til. Það má líka halda því til haga og gleyma því ekki að við getum ekki rætt um stóriðju annars vegar og svo nýju tækifærin hins vegar heldur erum við að hluta til með ákveðið forskot í nýju tækifærunum einmitt vegna sögu stóriðju hér, þess kerfis sem við höfum og þeirrar orkuframleiðslu sem við höfum farið í. Það eru til að mynda miklar tæknibreytingar í álframleiðslu. Það er ekki eins og við séum ekkert með nema einhverja tegund stóriðju sem ekkert þróast og ekkert breytist og engin nýsköpun er í. Það er alls ekki. Það eru miklar tæknibreytingar þar innan, það er mikil nýsköpun þar innan. Menn eru að leita leiða til að minnka losun, búa til frekari verðmæti, endurnýta þá orku sem verður til, hvort sem það er að endurnýta í glatvarma, að verið sé að þróa þessi nýju rafskaut sem munu breyta miklu, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á áðan, og það er kraftur í þeirri þróunarvinnu þrátt fyrir þau séu ekki komin í mikla almenna notkun enn þá, rafeldsneytisframleiðsla o.s.frv. Það sem ég er í raun að segja er að þetta fer saman. Þetta snýst um að fjölga eggjum í körfunni. Við höfum forskot og við viljum halda því. Við viljum stimpla okkur inn og það er ekki þannig að við getum verið róleg yfir því að þessi fyrirtæki fari héðan. Alla vega ekki ef við erum með loftslagshattinn af því að þetta er þó drifið áfram með grænni hætti hér en annars staðar í veröldinni.