151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

stefnumarkandi áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta og byggðamála.

471. mál
[15:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgöngu-, fjarskipta- og byggðamála. Tilgangur þess er fyrst og fremst sá að efla og samhæfa enn frekar stefnumótun og áætlanagerð á verkefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með skýra sýn og sameiginleg markmið að leiðarljósi og ná þannig auknum árangri og jákvæðum áhrifum fyrir samfélagið allt.

Frumvarpið felur í sér nýja hugsun og mikilvæga viðhorfsbreytingu í opinberri stefnumótun og áætlanagerð. Því er ætlað að ná fram aukinni samhæfingu og meiri gæðum einstakra áætlana á málefnasviðum ráðuneytisins, skarpari pólitískri aðkomu að stefnumótuninni og bættu samráði og samtali við almenning og hagsmunaaðila.

Þær fjórar áætlanir sem leggja grunn að stefnumótunarstarfi ráðuneytisins eru samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, byggðaáætlun og stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga. Þessar áætlanir varða öll meginverkefni ráðuneytisins og eru hryggjarstykkið í stefnu þess og starfi. Þær tengjast mjög náið og einstök meginmarkmið og áherslur snerta gjarnan þær allar samtímis. Þannig er verkefnið Ísland ljóstengt til að mynda fyrst og fremst byggðamál og bættar samgöngur tengja bæði sveitarfélög og byggðir.

Aukin samhæfing á þessu sviði næst með því að leggja skýrar áherslur, sameiginlega framtíðarsýn og meginmarkmið til grundvallar öllum áætlunum. Gefst þannig kostur á að hámarka árangur og jákvæð áhrif stefnumótunarinnar þar sem tekið er mið af tengdum málefnum og horft lengra en til sérstakra verkefna hvers málaflokks. Slík samhæfð stefnumótun sem byggir á skýrri og samræmdri framtíðarsýn leiðir til markvissari aðgerða og þar með betri nýtingu á opinberu fé, þekkingu og tækni.

Fyrsta skrefinu í þessa átt var náð með gildistöku laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, en þau tóku gildi í júní 2018. Var markmið þeirra að ná fram aukinni skilvirkni og samhæfingu áætlana, auk þess sem komið var á sérstakri stefnumörkun í málefnum sveitarfélaganna. Verklag við gerð áætlana var samræmt, sem og form þeirra og tímaspönn, m.a. út frá forsendum laga um opinber fjármál.

Með frumvarpinu er tekið næsta skref í átt að aukinni samhæfingu. Í því er skýrt kveðið á um að áætlanir skuli byggðar á tilteknum skýrum meginmarkmiðum og heildstæðri stefnumörkun ráðherra, auk þess sem gætt skuli að samhæfingu áætlana og að þær styðji hver við aðra í samræmi við sameiginlega framtíðarsýn og meginmarkmið.

Frumvarpið felur einnig í sér að ákvæði um gerð samgönguáætlunar, fjarskiptaáætlunar og byggðaáætlunar verða sameinuð í einum lögum í stað þrennra áður og efni þeirra samræmt, sem felur í sér töluverða einföldun regluverks á þessu sviði.

Nýleg ákvæði um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga verða hins vegar áfram í sveitarstjórnarlögum, enda nýtur sú áætlun nokkurrar sérstöðu vegna sjálfstæðis sveitarstjórnarstigsins. Stefnumörkun á því sviði verður hins vegar samhæfð þeim þremur áætlunum sem frumvarp þetta tekur til eins og kostur er.

Þá eru ákvæði frumvarpsins um undirbúning og innihald áætlana einfaldari en ákvæði núgildandi laga, sérstaklega laga um samgönguáætlun. Með þeim lögum voru sameinaðar fjórar áður sjálfstæðar áætlanir sem kallaði á ítarleg ákvæði um efni, markmið og verklag við gerð hinnar nýju sameinuðu samgönguáætlunar. Þessi þörf er ekki lengur til staðar og þá er það meira í samræmi við þróun lagasetningar undanfarinna ára að auka frekar pólitískt svigrúm til stefnumörkunar eftir aðstæðum hverju sinni.

Gert er ráð fyrir því að þingsályktunartillögur um samgöngu-, fjarskipta- og byggðaáætlanir verði lagðar fram einu sinni á kjörtímabili í stað þess að það skuli gert á að minnsta kosti þriggja ára fresti eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Er þetta í samræmi við ákvæði í lögum um opinber fjármál um framlagningu á fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar og undirstrikar að í tillögunum felist stefnumörkun ráðherra á þessum þremur sviðum á kjörtímabilinu. Ef forsendur áætlunar breytast á kjörtímabilinu eða ef tilefni er til að öðru leyti mun ráðherra leggja fram tillögu að breytingum á viðkomandi áætlun í stað þess að leggja fram nýja heildaráætlun. Verður undirbúningur og meðferð slíkra breytingartillagna því bæði einfaldari og markvissari en nú er.

Þá er loks gert ráð fyrir því að í stað árlegrar skýrslugjafar til Alþingis muni ráðherra upplýsa bæði Alþingi og almenning um framgang áætlananna með reglubundnum og aðgengilegum hætti. Liggur beint við að það verði gert í rafrænni upplýsingagátt þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar um meðal annars stöðu mælikvarða og einstakra aðgerða sem og ráðstöfun fjárveitinga verða uppfærðar reglulega. Upplýsingar um niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka miðað við fjárveitingar munu jafnframt áfram birtast í ársskýrslu ráðherra sem lögð er fram samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.