151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

veiting ríkisborgararéttar.

487. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar sem lagt er fram af meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Að venju set ég hvorki á langa ræðu um efni frumvarpsins né heldur mun ég telja upp þann nafnalista sem er hluti af frumvarpinu og hv. alþingismenn geta kynnt sér í þeim gögnum sem liggja frammi.

Allsherjar- og menntamálanefnd bárust 133 umsóknir um ríkisborgararétt á haustþingi 151. löggjafarþings en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum. Nefndin leggur til að umsækjendum á 30 umsóknum verði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni.