151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

orkuskipti í flugi á Íslandi.

330. mál
[16:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með frumkvæði umhverfis- og samgöngunefndar og ekki hvað síst að nefndin stendur öll að þessari þingsályktunartillögu. Það er alltaf ánægjulegt þegar stjórn og stjórnarandstaða standa saman um góð mál. Það er líka ánægjulegt að við fundum tíma til að kynna okkur nokkuð vel þær framfarir sem hafa orðið í notkun vistvæns eldsneytis á flugvélar og þá kom fram, eins og hv. framsögumaður Jón Gunnarsson kom inn á, að framfarirnar hafa verið hraðari en búist var við og má í rauninni segja að það hafi ekki verið ósvipað því sem gerðist með rafbílana eða hreinorkubílana svokölluðu. Það gekk ansi hægt í nokkur ár en síðan rúllar snjóboltinn alltaf hraðar og hraðar. Það tengist m.a. því að sífellt er verið að finna betri leiðir til að framleiða endingargóðar og léttar rafhlöður.

Það sem við horfum fram á er heill floti af loftförum, jafnvel loftskipum eins og voru í gamla daga, ekki hefðbundnum flugvélum heldur loftbelgjum sem eru knúnir áfram með hreyflum og eru jafnvel komnir í notkun, t.d. í löndum eins og Kanada. En við erum sem sagt að horfa á, ef við höldum okkur við flugvélarnar, litlar rafvélar sem eru eins konar loftleigutæki, lofttaxar. Við erum að horfa á meðalstórar rafvélar sem geta tekið 10–15, jafnvel upp undir 20 manns. Svo þegar kemur að lengri vegalengdum er vetnið mjög álitlegt. Airbus hefur einmitt verið að þróa meðaldrægar og langdrægar flugvélar, annars vegar hreyflavélar, eins og við þekkjum og eru notaðar í innanlandsflugi á lengri leiðum núna, um 20, 30, allt upp í 70 manna vélar, og svo aftur þessar langdrægari sem eru þá þotur eins og við þekkjum nú, eru sem sagt með hverflum og ná alveg sama hraða eða svipuðum hraða og núverandi þotur, og lofa þær mjög góðu. Svo inn í þann tíma sem líður á milli notkun rafvéla og hefðbundinna véla þá getur íblöndun í venjulegt eldsneyti gert eitthvert gagn. Þá er verið að tala um t.d. alkóhól, lífdísil eða annað slíkt.

Það er því margt fram undan í framförum í loftflutningum hvort sem eru til farþegaflutninga eða vöruflutninga. Það eru jafnvel vélar sem taka sig lóðrétt á loft og eru síðan knúnar áfram með verulegum hraða eftir að vængjum og vélum er snúið í þá átt. Þetta er tækni sem hefur verið notuð nú þegar með hefðbundið eldsneyti en það er hægt að hugsa sér slíkar vélar búnar hreyflum sem nota vistvænt eldsneyti.

Það beinir þá augunum að því sem ég ætlaði að ræða alveg sérstaklega og það eru flugvellir. Það hefur staðið dálítill styr um flugvelli á tvenna vegu, bæði hvar þeir eru staðsettir og eins hversu hægt gengur að halda þeim í góðu horfi. Ég ætla að spá því að vegna þróunar í átt að vistvænum flugvélum og á skilningi á því að flug getur orðið að mjög stórum þætti í almenningssamgöngum þurfum við að hyggja mjög vel að því að viðhalda flugvöllum, taka í notkun flugvelli sem hafa verið aflagðir og leggja nýja, vegna þess að ég spái því að almenningssamgöngur með vistvænum flugvélum, eða vistvænni flugvélum skulum við orða það varlega, verði miklu algengari en nú er. Ein ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu miklu lægri rekstrarkostnaður þegar kemur að sjálfum vélunum. Það er bæði minni viðhaldskostnaður, eins og við þekkjum með bíla, og minni þáttur eldsneytiskostnaðar en nú tíðkast.

Ég á sem sagt von á góðri þverpólitískri samstöðu um þetta tímabæra mál, þessa tímabæru þingsályktunartillögu, og leyfi mér að þakka samstarfsfólki mínu í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir að hafa staðið að þessu öllu saman með okkur öllum innan borðs.