151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

orkuskipti í flugi á Íslandi.

330. mál
[16:13]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka sérstaklega fyrir þessa þingsályktunartillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd og það frumkvæði sem nefndin sýnir með því að koma sameiginlega með hana fram í þinginu. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða og reyndar tel ég að við munum sjá samgöngubyltingu verða á Íslandi á næstu árum og áratugum þegar kemur að þeim samgöngumáta sem flugið er. Ég tel að það verði miklu meiri breytingar en við þorum að vona og trúum í dag að geti orðið á næstu 10–15 árum. Því er mikilvægt í þessu samhengi að við hugum að því að verja og styrkja það flugvallarkerfi sem er nú þegar til staðar og skoðum möguleika á því að aflagðir flugvelli verði aftur teknir í notkun. Ég held að það verði þvílík breyting á því hvernig við notum samgöngur í þessu landi þegar orkuskiptin verða komin hjá okkur, hvort sem það verður vetni, rafmagn eða annað grænt eldsneyti sem við notum. Tæknin breytist mjög hratt í rafmagnsflugi og við höfum séð gríðarlega hraðar breytingar á síðustu tveimur, þremur árum tengdar því. Fyrir tveimur, þremur mánuðum var t.d. sett upp í Noregi áætlunarflug sem á eftir fimm ár að fljúga milli Óslóar og Bergen, kannski 20–30 sæta vélar. Noregur er forystuland í þessum málum, Svíarnir hafa líka verið mjög duglegir og fyrirtæki þar, eins og framsögumaður kom inn á áðan, og þar er mikil áhersla lögð á þessi mál.

Ísland er strjálbýlt land og hentar gríðarlega vel fyrir rafmagnsflug þar sem flugleggir geta nú þegar verið 250–400 km á rafmagni. Við sjáum að Reykjavík–Akureyri er 250 km flugleið og Reykjavík–Egilsstaðir er rétt tæpir 400, 380 km, ef ég man rétt. Þessi tækni er til staðar nú þegar og vélar til sem geta sinnt þessu. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Það var líka komið inn á flugstefnuna sem var samþykkt í þinginu og lögð fram í tengslum við samgönguáætlun, ég held að flugstefnan hafi komið fram 2019. Eins og kom fram áðan hjá framsögumanni, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, er 4. lykilviðfangsefni stefnunnar að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds rekstrar, greiða fyrir orkuskiptum á sviði flugsamgangna samfara tækniþróun og stuðla að uppbyggingu nauðsynlegra innviða vegna þeirra.

Ég held líka að þetta muni gjörbreyta almenningssamgöngum í landinu, ég talaði um samgöngubyltingu, og það verði framhaldið af því sem við erum að upplifa þessa mánuðina, skosku leiðina eða það sem er kallað loftbrú í almenningssamgöngum í flugi. Það hefur tekist mjög vel til þar og fyrstu viðbrögð verið mjög góð. Þegar menn fara að nota rafmagn gæti það mögulega lækkað farmiðaverð í innanlandsflugi um 50% og talað er um að viðhald í flugrekstri geti minnkað um 70–80% þannig að við sjáum fram á nýja tíma í tengslum við það. Þetta er gríðarlega spennandi.

Ég ætlaði ekki að fara í mjög langt tal hér. Það sem maður hefur verið að einbeita sér að í þessum málum á undanförnum misserum og árum í umræðunni kemur fram í greinargerðinni. Hún er mjög góð og hnitmiðuð. Ég vildi bara koma hingað upp og þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd og nefndarmönnum þar, hv. alþingismönnum, fyrir að leggja þetta plagg fram. Vonandi verður framgangur þess sem mestur og hraðastur og við farin að sjá orkuskipti af krafti í innanlandsflugi eftir örfá ár.

Það er rétt að geta þess aftur sem ég kom inn á, mikilvægi þess að viðhalda flugvallarkerfi landsins og huga að því að við erum að fara inn í gjörbreytta tækni sem mun gjörbreyta hlutunum. Hugsum til framtíðar varðandi þessi stóru og mikilvægu samgöngumannvirki okkar, hvort sem það er Reykjavíkurflugvöllur eða aðrir flugvellir, hugsum þetta í stóra samhenginu. Þetta verður örugglega eitt stærsta málið í uppbyggingu samfélags okkar og því að viðhalda og styrkja landsbyggðina, hvort sem er í atvinnulífinu eða öðru, og búsetu í öllu landinu á komandi árum.