151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[21:48]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á þingsköpum þess efnis að nefndarfundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. Þetta er hugmynd sem ég hef einhvern tímann borið upp áður hér í pontu þótt ég muni ekki nákvæma dagsetningu. Það er stundum álitin tiltölulega róttæk hugmynd hér á Alþingi að fundir fastanefnda séu að jafnaði opnir. Ég vil byrja á að benda á að svo er ekki. Þetta er t.d. gert á Nýja-Sjálandi og þar er, að mér vitandi, ekkert ósætti um það. Hér á landi hafa áhyggjurnar snúið að því að séu fundir fastanefnda opnir þori nefndarmenn eða gestir kannski ekki að tjá sig jafn frjálslega og ella. Ég held í fyrsta lagi að það sé ofmetið vandamál. Í öðru lagi held ég að það sé frekar afleiðing af einhverri menningu hérlendis sem er þannig að einhvern veginn þurfi alltaf að vera svakalegur trúnaður yfir hlutum, án þess að menn velti því nokkurn tíma fyrir sér nákvæmlega hvers vegna.

Nú er ákveðin hefð fyrir því á Alþingi að lesa einfaldlega upp greinargerðir frumvarpa og þingsályktunartillagna. Ég nenni því ekki og ég sé að hv. 2. þm. Suðvest. nennir ekki að hlýða á það. Ég skil það mætavel. Miklu heldur langar mig aðeins að fjalla um rökin fyrir því að gera þetta og hvers vegna þetta er góð hugmynd. Málið gæti í fyrstu virst sjálfhverft af hálfu Alþingis, eins og kannski breytingar á þingsköpum almennt, en nefndarfundir þurfa ekki að vera opnir til að alþingismenn geti fylgst með þeim — nema þeir séu í agnarsmáum þingflokkum reyndar og hafandi reynslu af því veit ég að þá lendir maður stundum í því að hafa engan aðgang að þessum fundum, það er miður og þetta kæmi vissulega til móts við stöðu þeirra þingmanna. En fyrst og fremst eru opnir nefndarfundir hugsaðir fyrir almenning í landinu og ekki endilega til að einstaka borgarar séu að glápa á nefndarfundi að gamni sínu. Það gildir um nefndarfundi og gögn Alþingis, eins og upplýsingar stjórnvalda almennt, að upplýsingarétturinn er ekki hugsaður til þess að rosalega stór hópur í samfélaginu fari að kalla eftir einhverjum upplýsingum eða skoða nefndarfundi heldur til þess að þeir aðilar geri það sem hafa af því hag, atvinnu eða áhuga á því og gegni þannig aðhaldshlutverki en sömuleiðis því hlutverki að geta látið fréttast þegar eitthvað er tekið til umfjöllunar í samfélaginu. Ég á vitaskuld sérstaklega við fjölmiðla.

Það skiptir verulegu máli fyrir hinn almenna borgara sem les fréttirnar eða hlustar á þær að blaðamenn hafi aðgang að upplýsingum. Það er yfirleitt ekki borgarinn sjálfur sem er að vasast í þeim — reyndar sumir, reyndar ótrúlega margir. En punkturinn er ekki sá að mesta þörfin sé á því að hinn almenni kjósandi fari að skoða nefndarfundi Alþingis. Auðvitað getur það þó alveg gerst. Við getum nefnt sem dæmi það sem er í gangi núna varðandi nýsköpun í atvinnuveganefnd. Ég held að öll umræða í samfélaginu væri miklu skarpari, frjórri, ríkari, betri, nákvæmari og upplýstari ef nefndarfundir atvinnuveganefndar um þann málaflokk væru almennt opnir. Það er risavaxinn málaflokkur og mjög mikið af ólíkum sjónarmiðum meðal fólks sem er á móti málinu eða er hlynnt því, er ekki búið að gera upp hug sinn eða hvaðeina. Þarna er ríkt tækifæri fyrir mikla og góða samfélagsumræðu en tækifærið er verulega vannýtt vegna þess að það eina sem borgarar og fjölmiðlar hafa aðgang að eru skjöl þingsins, þ.e. umsagnir sem berast, þingskjölin sjálf, nefnilega frumvörpin, ræður þingmanna og síðan kannski umfjöllun innan einstakra flokka. Við Píratar höfum t.d. haft skugganefndarfund um þetta mál einu sinni áður og munum halda annan næstkomandi fimmtudag, klukkan hálfsex til sjö. Allir eru velkomnir á hann og hann er fyrstur á dagskrá á vef Pírata, piratar.is. Þessi auglýsing kom einhvern veginn mjög náttúrlega hjá mér, ég vil bara taka það fram.

Að öllu gamni slepptu er það reynsla mín hér á Alþingi að margoft eru mál ekki alveg þannig að fólk fari beinlínis að mótmæla þeim en almenningur og fjölmiðlar hefðu gott af betra aðgengi að þeim til að dýpka umræðuna. Þetta er vannýtt tækifæri sem ég tel að við gætum nýtt betur með því að hafa nefndarfundi að jafnaði opna og mikilvægt er að halda til því haga: Að jafnaði, ekki alltaf. Vitaskuld eru til aðstæður þar sem fólk ýmist þarf eða vill loka fundum og gert er ráð fyrir því í frumvarpinu, t.d. ef fjalla á um eða afhenda gögn í trúnaði af einhverjum ástæðum. Þar geta legið að baki ýmis sjónarmið; öryggissjónarmið, einkalífssjónarmið, að upplýsingar geti haft áhrif á markaði ef þær sleppa út of snemma eða eitthvað því um líkt. Sömuleiðis geta gestir einfaldlega óskað eftir því að nefndarfundur sé lokaður og þá er sjálfsagt að verða við því. Ég get alveg ímyndað mér að það séu nokkrir gestir sem komi fyrir þingnefnd og líði illa með að ræða opinskátt og hreinskilnislega við þingmenn fyrir opnum tjöldum. Stundum eru gestir að kvarta undan framgangi starfsfólks annarra stofnana eða að kvarta undan einhverju sem þeim finnst viðkvæmt eða vilja ekki láta rekja til sín aftur af einni eða annarri ástæðu. Það er fullkomlega eðlilegt að bregðast við slíkum áhyggjum. Hugmyndin hér er ekki sú að opna upp á gátt eitthvað sem er verið að fela, heldur að dýpka umræðuna og gera þeim kleift að hafa aðgang að fundunum sem myndu njóta þess að taka meiri og ríkari þátt í löggjafarferlinu sjálfu. Það felur vitaskuld í sér samskipti við almenning í formi umsagna og gestakoma til Alþingis og auðvitað fjölmiðlaumfjöllunar og umræðu í samfélaginu.

Önnur þjóðríki og löggjafarsamkundur hafa oft opna nefndarfundi. Tilfinningin mín er að á Íslandi sé óþarflega mikil feimni við að segja hlutina opinberlega. Ég gæti ábyggilega dregið einhverjar tilgátur upp úr vasanum um hvers vegna svo sé en ég held að ástæðurnar séu lélegar. Ég held að það væri til bóta að tala opinskárra á Alþingi. Ég hygg ekki að nokkrum detti í hug að loka þingfundum. Þótt umræðan hér í þingsal sé stundum rægð allnokkuð fyrir það hvernig hún getur orðið hygg ég samt að fyrir þingstörfin væri ekkert betra ef þingfundir væru lokaðir. Ég held ekki að það væri lausnin sem myndi gera umræðuna málefnalegri eða fengi fólk til að hlusta meira, þvert á móti reyndar. Ég hef einfaldlega enga ástæðu til að ætla að opnir nefndarfundir, jafnvel þó að nefndarmenn og gestir fara að haga sér aðeins öðruvísi, myndu koma niður á málsmeðferð. Ég hygg ekki.

Reynsla mín af því að hafa setið ótal nefndarfundi og þingfundi er nefnilega sú að jafnvel þó að af og til komi fyrir að einhver vilji tjá eitthvað sem væri óþægilegt eða óskynsamlegt að tjá opinberlega er það bara svo ofboðslega sjaldgæft miðað við tilfellin þar sem gestir eru einfaldlega að koma á framfæri sjónarmiðum og upplýsingum og svara spurningum þingmanna. Það er yfirþyrmandi meiri hluti þess sem á sér stað á nefndarfundum. Ógurlegri er ekki spillingin sem þar á sér stað. Jafnvel þó að nefndarmenn sjálfir, þ.e. þingmenn, vilji spjalla sín á milli um hvað þeim finnist um hitt eða þetta er ekki verið að fjalla um að opinbera öll samtöl þeirra. Við þingmenn sem störfum í nefndum vitum alveg að við hringjum hvert í annað, sendum skilaboð og tölvupósta og fundum í færeyska herberginu eða undir stiganum eða frammi á gangi eða í matsal eða inni í þingflokksherbergi eða hvað eina. Það er ekkert sem hindrar þingmenn í að tala tæpitungulaust og hreinskilnislega eða í trúnaði hver við annan þótt nefndarfundir séu að jafnaði opnir, enda hefur þetta að mér vitandi hvergi verið vandamál í þjóðríkjum þar sem nefndarfundir eru að jafnaði opnir.

Ég hygg að þetta sé góð tilraun sem við ættum að fara út í og hún myndi bæta getu almennings til að fylgjast með málum hér og taka þátt í þeim. Sum mál, og nú vísa ég aftur í nýsköpunarfrumvörpin sem eru til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, eru þess eðlis að ótalmargir hagsmunaaðilar hafa gríðarlegan áhuga á framgangi þeirra og myndu setja sig inn í að horfa á nefndarfundi, bara til að vita hvaða spurninga er spurt, bara til að skjóta því kannski að einum eða tveimur þingmönnum að til sé spurning eða að til séu upplýsingar sem væru þess virði fyrir þingmanninn að leita nánari skýringa á eða svara við hjá þeim gestum sem fyrirhugað er að mæti fyrir þingnefndina. Ekkert af þessu er til að opinbera eitthvað skuggalegt. Þetta er allt saman bara til að liðka fyrir því að tannhjól lýðræðisins virki eins vel og þau mögulega geta. Það kom mér alla vega á óvart, þegar ég varð fyrst þingmaður, hvað Alþingi er í raun og veru opinber stofnun. Það sama er ekki hægt að segja um þær allar á Íslandi, því miður. Einstaklingur sem vill kynna sér mál til hlítar kemst ansi langt með því að kynna sér skjölin sem eru til grundvallar, þingskjölin og sér í lagi umsagnirnar, ég tala nú ekki um ef málið hefur verið flutt áður og til eru gamlar umsagnir. Þá er hreinlega hægt að týna sér í því að garfa í málinu, baksögu þess, öðrum tengdum skjölum og þess háttar og öðlast mjög djúpan skilning á því sem er að gerast í einstaka málum á Alþingi. Það er hægt. En það vantar alltaf nefndarfundina. Þeir eru alltaf ákveðinn blindur blettur þar sem oft vantar akkúrat það sem einstaklingur, hagsmunaaðili eða fjölmiðill þarf á að halda til að verða upplýstur um málið, geta skýrt sem best frá því, áttað sig á framganginum og jafnvel haft áhrif á það með umræðu eða samtölum við þingmenn.

Ég hygg að með því að fjarlægja þennan blinda blett sem lokaðir nefndarfundir eru væri hægt að bæta umræðuna í samfélaginu um einstaka mál. Upplýsingar sem einungis koma fram þegar þingmenn spyrja ytri aðila myndu þá koma betur fram. Umræðurnar okkar hér á Alþingi eru eitt, fyrir utan auðvitað alla dagskrárleikfimina sem á sér stað hér og það að við erum einhvern veginn að predika skoðanir okkar og aðeins að spyrja hvert annað. En það er grundvallarmunur á því og að vera í skipulögðu, faglegu umhverfi, eins og nefndarfundir eru, í takmarkaðan tíma þar sem er miklu strangari fundarstjórn og betri stjórn á tíma og þar sem þingmenn eiga samskipti við aðila utan þingsins. Það er grundvallarmunur þar á og ég held að það sé vanmetið hversu miklu dýpri umræða gæti átt sér stað í samfélaginu, og sér í lagi fjölmiðlaumfjöllun, ef þessi samskipti væru líka opin. Þetta finnst mér vera hinn týndi hlekkur í gegnsæi Alþingis og þegar kemur að störfum okkar hér.

Hvað varðar tæknilega útfærslu, lagatækni og þess háttar, ætla ég að vísa til greinargerðarinnar og spara hv. 2. þm. Suðvest. ræðuna og auðvitað þeim sem hér stendur, svo að ekki sé minnst á virðulegan forseta. Ég legg því í fyrsta lagi til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir en í öðru lagi að þetta mál gangi til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 2. umr.