151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa frábæru ræðu og þessa frábæru tillögu sem einhverra hluta vegna einungis helmingur þingflokks Flokks fólksins er á — ég hefði svo sannarlega viljað vera með á þessari tillögu því að hún er mér virkilega að skapi. Það er ýmislegt sem maður veltir fyrir sér. Við tölum gjarnan um að þingið njóti lítils trausts, hve fólk viti lítið um það úti í samfélaginu hvernig störfum okkar er háttað. Það er alveg komið í þjóðarsálina að við stöndum í þessum ræðustól reglulega og það virðist, eins og ég skynja það úti í samfélaginu, að fólk átti sig ekki á því hversu umfangsmikið starfið er í nefndunum. Mér finnst þessi tillaga undirbyggja lýðræðið, auka beina lýðræðið sem við erum alltaf að kalla eftir. Við erum alltaf að kalla eftir því að kjósendur okkar, sem komu okkur hingað í starf, fái að taka þátt í starfinu með okkur og sjái hvað við erum raunverulega að gera. Mig langar að nefna það, af því að ég heyri að hv. þingmaður nefnir það ekkert sérstaklega, hvað mér finnst það vera ofboðslega mikill jákvæður vinkill við þessa tillögu, þetta sýnir störfin okkar, sýnir hvað við erum að gera. Kannski væri það þá líka komið í þjóðarsálina, eins og á við um ræðustólinn hér, að við alþingismenn vinnum við fleira en það sem kemur fram í þessum sal þó að hann sé mikilvægur og merkilegur. Hér eru mál í raun samþykkt eftir alla úrvinnsluna í nefndunum. Mér þykir því í fyrsta lagi mjög miður að ég geti ekki verið með á tillögunni og að ég hafi verið orðin of sein að ýta á takkann. Í öðru lagi velti ég þessari hugmynd upp, hvort hv. þingmaður geti eitthvað aðeins komið inn á þetta.