151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:04]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka auðvitað stuðninginn. Ég kann ekki skýringar á þessu með flutningsmennina en það er sjálfsagt að skoða hvort hugsanlega hafi eitthvað farið úrskeiðis okkar megin. Við skoðum það bara. Þá er eflaust hægt að prenta skjalið upp. Ég skal alla vega kanna það fyrir hv. þingmann og ég þakka henni aftur fyrir stuðninginn.

Hvað varðar þann þátt sem stundum er einmitt talað um, að almenningur sjái ekki nefndarstörfin og það góða sem oft á sér stað á Alþingi, þá snertir það á grundvallarmuninum sem ég nefndi í ræðu minni, muninum á því þegar þingmenn tala hver við annan og þegar þingmenn tala við gesti. Það er grundvallarmunur á samtali tveggja einstaklinga sem hafa í kosningabaráttu barist fyrir mjög ólíkum sjónarmiðum annars vegar og hins vegar þingmanni sem leitar sér upplýsinga, spyr spurninga eða mátar ólík sjónarmið við sín eigin. Það á sér stað í nefnd. Auðvitað eru samskiptin allt öðruvísi vegna þess að þau eru ekki í þeim ágreiningsgír sem er hér, eðlilega. Við erum hingað komin til að útkljá ágreining. Til þess er stofnunin. Hún er til að útkljá ólík sjónarmið og til að við togum í ólíkar áttir. Annars værum við ekki hér á Alþingi. Þetta væri bara einhver skrifstofa.

Áhyggjur sem sumir hafa haft af þessu frumvarpi, eða af opnum nefndarfundum, eru á þá leið að fundirnir breytist þá í meira mæli í eitthvað sem fólki finnst vera einhvers konar leiksýning, eins og fólk upplifir sumar ræður hér. Ég skil sjónarmiðin en ég hef ekki áhyggjur af því vegna þess sem ég nefndi, að þetta eru eðlisólík samskipti. Við erum að tala við gesti og við viljum vera kurteis við gestina okkar og sýna þeim virðingu. Við erum ekkert endilega ósammála þeim þótt við séum að leita svara við spurningum og þess háttar, alla vega langoftast ekki. Hitt er síðan líka að ég held að það séu einfaldlega ekki pólitískir hagsmunir þingmanna að breyta nefndarfundum í eitthvert sjónarspil. Ég bara held að það séu ekki hagsmunir þeirra. Ég held að nefndafundir nýtist þeim best eins og þeir nota þá í dag; (Forseti hringir.) til að leita upplýsinga, til að spyrja spurninga og öðlast skýrari mynd af málinu sem er til umfjöllunar hverju sinni.