151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:08]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reynsla mín af því að horfa á opna nefndarfundi Alþingis er ekki sú að þar fari fram meira sjónarspil en á lokuðum nefndarfundum. Vissulega er fundarstjórn oftast, ef ekki alltaf, svolítið strangari, eins og hv. þingmaður nefnir, enda kannski bara ágætt í sjálfu sér. Munurinn á þessum fundum er sá að á nefndarfundi er miklu auðveldara að prófa ný mörk, leyfa kannski einhverjum þingmönnum að fá fimm mínútur í einu í samskiptum við gestinn eða að hver þingmaður og gestur fái tvær eða fimm mínútur eða hvað sem er. Það er hægt að sníða tímann svo mikið að því til hvers fundurinn er. Ég hef t.d. stundum hlustað á opna fundi með seðlabankastjóra þar sem hann er að útskýra skýrslur sínar og á fundi með umboðsmanni Alþingis og fleira slíkt. Ég sé bara ekki þetta sjónarspil. Ég sé ekki að þau nefndarstörf séu einhvern veginn meiri leiksýning. En þessir fundir eru skipulagðari sem er bara fínt.

Stundum fylgist ég með nefndarstörfum í Bandaríkjunum, sem sérlegur áhugamaður um Bandaríkin, og þar segir fólk alls konar hluti berum orðum. Ég velti því stundum fyrir mér hvort Íslendingur myndi segja slíka hluti opinberlega. Þar segir fólk á fundum: Þetta er svona og svona, ég tók þessa ákvörðun og ef þér finnst eitthvað um það þá finnst þér eitthvað annað og það er allt í lagi.

Það er miklu meiri menningarleg hefð fyrir því í Bandaríkjunum að vera bara ósammála um eitthvað sem skiptir verulegu máli. Kannski á það einhvern þátt í því hvað Íslendingar eru stundum feimnir við að tjá sig en eru að sama skapi ótrúlega ófeimnir við að láta eitthvað flakka sem mætti alveg íhuga betur, skulum við segja. Hitt er líka að í þessum bandarísku þingnefndum eru svörin oft á þann veg að hægt sé að útskýra eitthvað gróflega í litlum skömmtum hér og nú. Svo sé hægt að koma á lokaðan fund seinna og útskýra í meiri smáatriðum. Það er algerlega málefnalegt og alveg sjálfsagt. Það er líka gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi. Það er ekkert mál að gera þetta. (Forseti hringir.) Þetta er engin rosaleg ráðgáta. Þetta er ekkert flókið að mínu mati. Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að prófa. Við þurfum að þora, held ég.