151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:11]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Það gleður mig mikið að þetta flotta mál skuli vera komið hingað inn í þingsal fyrir margra hluta sakir, bæði út frá stöðunni sem ég stend í hér tímabundið í ræðustól Alþingis sem þingmaður sem og persónulega. Þetta tiltekna mál hefur verið einn af rauðu þráðunum í gegnum þingmennsku flutningsmanns tillögunnar, hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar. Ég gróf upp bloggfærslu á vel auglýstu heimasíðunni okkar frá því fyrir sjö árum. Þar segir 14. maí 2014, undir fyrirsögninni: Helgi Hrafn kallar eftir opnum nefndarfundum, með leyfi forseta:

„Helgi Hrafn Gunnarsson tók til máls undir liðnum störf þingsins í morgun og ræddi opna nefndarfundi. Tilefni umræðunnar var að í gærkvöldi hitti Helgi Hrafn grasrót flokksins til að ræða frumvörp um ætlað samþykki við líffæragjöfum og frumvarp til laga um rannsóknir á heilbrigðissviði. Þingmaðurinn fann mjög til þess hve miklu það myndi muna fyrir alla umræðu ef grasrótin hefði getað kynnt sér það sem fram kemur á fundum þingnefnda. Í ræðu sinni mæltist Helgi Hrafn til þess að nefndarfundir verði almennt opnir en gestir nefndarfunda geti óskað eftir trúnaði í þeim tilvikum sem það er nauðsynlegt.“

Það er þetta sama ár sem ég gekk í minn flokk, Pírata, og það var einmitt vegna þessarar hugmyndafræði, vegna svona nálgunar á tilveruna og á stjórnmálin sjálf, sem ég heillaðist (Gripið fram í.)og hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera fulltrúi fyrir hér á Alþingi.

Með leyfi forseta, ætla ég að fá að lesa hér upp 4. gr. úr grunnstefnu Pírata vegna þess að það er mjög viðeigandi í samhengi við það mál sem við ræðum hér í þingsalnum og undirstrikar hugmyndafræðina sem ég vitnaði í áðan. Þar segir að gagnsæi snúist um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni:

„Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna. Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir. Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.“

Í því frumvarpi sem við ræðum er jú boðuð breyting á lögum um þingsköp þannig að nefndarfundir Alþingis verði að jafnaði haldnir í heyranda hljóði, þó með einhverjum undantekningum. Það þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að hætta sé á ferðum, að mál sem varða þjóðaröryggi yrðu ekki rædd í trúnaði eða mál sem varða mikilvæga hagsmuni Íslands sem leynt þurfi að fara. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á væri hægt að óska eftir leynd og hægt að gæta trúnaðar áfram.

Sjö árum síðar, eftir að ég uppgötvaði þessa hugmyndafræði um gagnsæi í stjórnmálum almennilega, hef ég sjálf setið marga nefndarfundi Alþingis. Ég vil minna á að langmestur tími á nefndarfundum fer einmitt í umfjöllun um innsendar umsagnir sem eru opinberar. Þetta yrði því ekkert gríðarlega dramatísk breyting hvað varðar gagnsæi en hún er samt mikilvæg upp á þá vegferð, eins og hv. þm. Inga Sæland kom réttilega inn á, að auka gagnsæi og traust almennings á stjórnmálin og á Alþingi og á það starf sem við vinnum hérna. Það er leyndarhjúpur yfir ákveðnum hlutum og ákveðinni starfsemi hér á þingi og sér í lagi á nefndasviði. Það er óþarfa leyndarhjúpur og þessi tillaga tekur mjög vel á því. Það gætir líka ákveðins misskilnings í sambandi við störf okkar hér á þingi og hvernig hlutirnir fara fram. Þetta yrði svo gott og jákvætt skref í áttina að því að auka traust á Alþingi og auka traust á stjórnmálin eins og kallað er eftir. Að lokum óska ég hv. flutningsmanni tillögunnar innilega til hamingju. Ég vona að þetta mál eigi greiða vegferð í gegnum þingið og verði samþykkt.