151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vil ég fá alveg skýrt svar frá hæstv. forsætisráðherra, að hún segi nákvæmlega hverju þetta auðlindaákvæði breytir. Erum við að tala um að þjóðareignin verði raunverulega virk eða að hún verði bara óvirk og það sé engin breyting frá 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga sem nú er í gildi? Hvað þýðir þetta? Ef það er þessi skilningur er þá ekki best að hnykkja rækilega á honum í ákvæðinu sjálfu og setja inn tímabindingu eða uppsegjanleika heimildanna? Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og á þessu veltur að mínu mati hvort við getum tekið þetta skref, af því að ég er sammála hæstv. forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins líka að við eigum að taka þessi skref í áföngum en þá verða þau að vera raunveruleg. Þá má það ekki vera sýndarmennska eða orðhengilsháttur. Ef forsætisráðherra er á því að það sé raunverulega um tímabindingu að ræða þá á að setja það inn í ákvæðið. Þess vegna spyr ég: Hverju breytir þessi tillaga forsætisráðherra frá núverandi fyrirkomulagi? Breytir hún einhverju? Virkjum við þjóðareignina að einhverju marki? Eða er þetta kannski engin breyting?