151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hverju breytir þetta ákvæði? spyr hv. þingmaður. Það breytir auðvitað lagaumhverfi auðlindanýtingar að þjóðareign á auðlindum sé áréttuð í stjórnarskrá. Það breytir því auðvitað. Það eru fleiri auðlindir en fiskur í sjó og þó að þetta standi í 1. gr. laga um fiskveiðistjórnarkerfið þá erum við að fjalla um fleiri auðlindir hér í fyrsta lagi og í öðru lagi verður lögum breytt með allt öðrum hætti en stjórnarskrá. Hverju breytir þetta? Ég myndi segja að það breyti gríðarlega miklu að ákvæði um auðlindir í þjóðareign sé komið í stjórnarskrá. Það hefur áhrif á hvernig við nálgumst það verkefni sem og gjaldtöku. Það eru ekki mörg ár síðan við hv. þingmaður tókumst á um auðlindagjöld hér 2012, þegar við ræddum um veiðigjöld sem þá voru til umræðu. Það hefur mikið breyst í umræðunni síðan þá. En það minnir okkur hins vegar á að lögum verður auðveldlegar breytt en stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Þarna erum við að setja gríðarlega mikilvægan grunn til framtíðar.