151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að formaður Samfylkingarinnar taki undir sjónarmið mín um samfélagslega nýtingu því að þeim er ekki fyrir að fara til að mynda í þeim frumvörpum sem hafa verið til umræðu af hálfu stjórnlagaráðs og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er galli á þeim frumvörpum að mínu viti. Hv. þingmaður talar líka um markaðsleigu og þá komum við aftur að því sem ég nefndi áðan. Ég kann ekki við þegar sagt er að verið sé að hlífa einni atvinnugrein umfram aðrar. Þá finnst mér, með réttu eða röngu, að verið sé að gera mér upp skoðanir. Og það er ekki þannig. Það er mín eindregna skoðun að þetta ákvæði eigi að rúma allar auðlindir og það sé hlutverk löggjafans að taka afstöðu til gjaldtöku á nýtingu í ábataskyni. Það er mjög mikilvægt að það sé skylda að löggjafinn geri það. En ég hef líka þá skoðun að það sé viðfangsefni þingsins hverju sinni að taka slíka umræðu því að það er ólíkt hvort við tölum um land, fisk eða orku.